149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:11]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi atburðarás öll vekur spurningar og því vil ég biðja hv. þingmann að fara aðeins betur yfir þetta með mér. Ef útgerðir fara í mál og Hæstiréttur snýr dómi Héraðsdóms Reykjavíkur við og dæmir þeim sem sóttu málið í vil geta þeir sótt sér skaðabætur. Það var niðurstaða dómsins og í kjölfarið kemur hæstv. sjávarútvegsráðherra með frumvarp sem miðar við veiðireynslu sem er alls ekki, að mínu viti, í anda laganna. Það er farið svolítið mikið út fyrir anda núverandi laga og niðurstaða hæstv. ráðherra, ef ég leyfi mér að segja, varð sú að stórútgerðin fékk þarna stærri hlut á kostnað hinna minni. Nú hefur atvinnuveganefnd gert breytingar en samt sem áður koma þeir minni verr út og eru með öðruvísi kerfi í kringum sig. Ekki getur verið að það hafi verið ákveðið að fara þessa leið og hygla stórútgerðinni til að reyna að fá hana til að fara ekki í skaðabótamál því að skaðabótamálið er komið fram. Það hefði líka verið mjög undarlegt ef litlu útgerðirnar hefðu átt að borga skaðabótamál ríkisins gagnvart hinum stóru þannig að það hefði auðvitað verið fáránlegt ef ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hefðu ætlað að ganga þann veg.

Hvers vegna þessi leið var farin en ekki bara staðfest, þá með lögum, það sem unnið hefur verið eftir í reglugerð undanfarin ár og margir sjávarútvegsráðherrar úr mörgum flokkum hafa gert — sú spurning stendur enn opin í mínum huga.