149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir það mjög undarlegt ef hv. þingmaður ræðir um að staðfesta með lögum það sem hefur verið gert með reglugerð til fjölda ára. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður sé búin að berjast fyrir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og uppboði á öllum aflaheimildum, (OH: Svaraðu spurningunni.) og þá er ekki verið að fara eftir því sem hefur verið stundað til fjölda ára. (Gripið fram í.) Ef ég má tala hér, hæstv. forseti — (OH: Svara.) já, ég hef orðið.

(Forseti (SJS): Gefa ræðumanni hljóð. (OH: Svara.) Gefa ræðumanni hljóð.)

Það er mikill taugatitringur í uppboðsfólki í salnum, heyri ég. Það sem ég ætlaði að segja er að löggjafinn hefur frjálsar hendur um það hvernig hann setur lög um stjórn fiskveiða. Ekki hafa verið sett lög um stjórn á veiðum á makríl. Veiðum á makríl hefur verið stjórnað með reglugerð. Nú er löggjafinn að leggja til hvernig veiðum verði stjórnað með lagafrumvarpi og það ræðst af því hvernig þingið er samansett hvernig sú niðurstaða verður. Hér liggur fyrir niðurstaða um að gera þetta með þessum hætti og það er okkur sem löggjafa alveg frjálst að gera. Ég tel að við Vinstri græn höfum með okkar áherslum náð fram góðum breytingum á málinu til hagsbóta fyrir þær útgerðir sem stunda veiðar með línu og handfærum í kringum landið þar sem makríll byrjaði að veiðast miklu seinna. Veiði verður skipt upp í tvo flokka, þá sem eru á úthafsmiðum og veiða með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu og þá sem eru á handfæri og línu. Nú fá þeir sem eru á handfærum og línu á makríl meira að segja hærra hlutfall en hæst hefur náðst hingað til, eitthvað um 5,4%. Eins og frumvarpið lá fyrir voru það rúm 2% sem þeir útgerðarflokkar sem veiddu með þessum veiðarfærum fengu. Ég tel að búið sé að vinna svo í þessu að jafnræði sé orðið miklu meira milli þessara aðila sem stunda veiðar á úthafsmiðum og við strendur landsins. Löggjafanum er bara frjálst að setja lög í landinu um veiðar á makríl eins og gagnvart öðrum málaflokkum.