149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þegar makríllinn gengur inn í okkar lögsögu er hann sameiginleg eign þjóðarinnar. Nú á að kvótasetja hann eftir að það klúðraðist á þingi að kvótasetja hann 2015 af því að þá voru menn svo frekir að þeir vildu setja hann inn í nýtt kerfi þar sem útgerðin myndi fá hann í sex ár plús eitt ár að eilífu. Sjötta stærsta undirskriftasöfnun í sögunni til forseta Íslands gekk út á að vísa því máli í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af því að ekki tókst að kvótasetja hann, út af þessari frekju, stöndum við hér í dag. Það var vanrækt 2011 að kvótasetja hann þannig að það er sífellt klúður þegar kemur að því að fara með þessa sameiginlegu auðlind þjóðarinnar, fiskveiðiauðlindina. Þetta er áframhaldandi klúður í ósátt við vilja þjóðarinnar.

Það voru rúm 53.000 sem skrifuðu undir á sínum tíma, árið 2015, um að vísa málinu til þjóðarinnar. Ef sú leið verður farin sem verið er að leggja til hér varðandi kvótasetningu á makríl getur það kostað ríkissjóð, þar af leiðandi skattgreiðendur, tugi milljarða. Þetta kemur fram á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Í desember þurfti ríkið, skattgreiðendur í landinu, að borga útgerðunum — hvað voru það margir milljarðar þá, í desember þegar Hæstiréttur dæmdi? Man það einhver? Engin svör úr sal. En vegna klúðurs stjórnvalda og Alþingis í því að fara með sameiginlega auðlind okkar eiga skattgreiðendur, eigendur auðlindarinnar, að borga útgerðunum fyrir það klúður, hvernig þær fái að nýta okkar eigin auðlind. Leiðin sem væri hægt að fara er sú að þessi nýja fiskveiðiauðlind, makríllinn, sé boðin út og að landsmenn fái markaðsverð fyrir hana þannig að landsmenn sjálfir fái það verð sem útgerðin er tilbúin að borga fyrir hana. Það væri sanngjörn leið. Við stöndum hvort eð er frammi fyrir því, frekjan er svo mikil, að ríkissjóður og skattgreiðendur þurfa að borga útgerðunum fyrir það að þær fái ekki að nýta auðlindina nákvæmlega eins og þær helst vilja. Það er það sem væri sanngjarnt, að landsmenn fengju markaðsverð fyrir nýtinguna.

Það er ekki sú leið sem á að fara hér. Í Fréttablaðinu kemur fram að makrílkvótinn sé 65–100 milljarða kr. virði og að bætur ríkisins til útgerðarinnar gætu þá orðið 35 milljarðar kr. Bótakröfur hafa þegar verið gerðar á ríkið, stefnur frá útgerðinni vegna úthlutunar á makríl hafa þegar verið sendar inn.

Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Partur af því sem var kvartað yfir í nefndinni er að nú líti útgerðirnar á það sem sín eignarréttindi að fá þetta og að einhverju leyti er það mögulega rétt, að það sé orðið þannig, af því að það hefur verið vanrækt svo lengi að fara þá leið að taka kvótann aftur til landsmanna. Menn geta deilt um hvort þetta séu orðin séreignarréttindi en nú vilja menn halda því fram og ef svo er er þessi lagasetning hér brot á stjórnarskránni, þetta stjórnarskrárverndar eignarréttinn. Þetta er allsherjarklúður frá upphafi til enda, þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni okkar, í ósátt við almenning og nú á almenningur að borga útgerðinni fyrir það að Alþingi klúðrar enn og aftur ef þessi leið verður farin.