149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einkum tvennt sem ég er að velta fyrir mér eftir þessa ræðu. Ég ætla að byrja á að leiðrétta það að Hæstiréttur hefur ekki dæmt neinum milljarðabætur. (Gripið fram í.) Það er viðurkennd bótaskylda en viðkomandi átti eftir að sanna tjónið og hvort það varð yfir höfuð eitthvert.

Annað mál, sem er lykilatriði með svokallaða uppboðsleið, er að þjóðin eigi þennan makríl. Þjóðin á ekki þennan makríl, þessi makríll er bara á úthafssvæði en við getum auðvitað stjórnað þessum veiðum á grundvelli fullveldisréttarins. Það er það sem við getum gert en þetta er ekki réttlætismál í þeim skilningi að við eigum þetta. Þetta er ekki einu sinni í okkar lögsögu. Af hverju fáum við hluta af þessum kvóta? Það er vegna þess að einhverjir sóttu þetta á sínum tíma út á ballarhaf eins og sagt er. Tillaga um að úthluta á einhverjum uppboðsmarkaði mun aldrei ganga miðað við þau réttindi sem menn eiga sem sóttu þetta á sínum tíma, þegar enginn kvóti var á þessu, og lögðu í þann kostnað. Og svo höldum við þingmenn að við getum bara sagt: Heyrðu, þetta er okkar mál og þið eigið engan rétt. Við ætlum að bjóða hæstbjóðanda. Það er ofbeldi ríkisvaldsins og ekkert annað.