149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég held að það standist einmitt ekki stjórnarskrá að innkalla aflaheimildir. Hugsanlega gæti það gerst á löngum tíma en það er algjörlega útilokað að mínu viti að innkalla aflaheimildir og selja á uppboði. Menn mega ekki gleyma því að þeir sem sóttu sjóinn í frjálsu kerfi, þeir sem fóru á úthafið til að veiða makríl, mynda réttindi. Þau réttindi eru líka varin af stjórnarskránni, menn mega ekki gleyma því. Við höldum alltaf að við eigum allt, líka það sem er á úthafinu, og þess vegna getum við gert það sem okkur sýnist. Þetta er ekki þannig, hefur aldrei verið þannig og það er ástæðan fyrir því í kvótakerfinu í upphafi að byggt var á veiðireynslu. Sú reynsla og þau réttindi voru varin af stjórnarskrá. Það er kjarni málsins.

Þessi makrílkvóti er þannig að þetta eru samningar á milli þjóða. Við náum þessum mikla kvóta vegna þess að einhverjir tóku áhættu, lögðu út í kostnað og fóru að veiða. Jú, jú, stundum kemur eitthvað af þessu hér inn í landhelgina. Í sögulegu ljósi hefur það verið mjög sjaldan og mjög líklegt að það gerist aftur þannig að þarna hafa menn myndað sér réttindi.

Vandamálið með ríkisstjórnina 2009–2013 var að hún hélt að hún gæti stjórnað þessu með einhverri reglugerð sem allir vissu að stæðist ekki lög. Allir vissu að þessi dómur kæmi á endanum en vandamálið, að glíma við þetta núna, er að þarna hafði verið úthlutað veiðiheimildum sem síðan er voða erfitt að taka til baka af því að menn hafa lagt í kostnað og fjárfestingar. Þetta er klúðrið sem við höfum lent í og sem lendir á hæstv. sjávarútvegsráðherra að reyna að laga eftir bestu getu. Ég hefði ekki viljað vera í hans sporum.