149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þá vil ég benda hv. þm. Brynjari Níelssyni á að það að afturkalla kvótann eins og er verið að gera núna, alla vega veiðiheimildirnar sem ákveðnir aðilar hefðu átt að fá úthlutað 2011 — nú eiga þeir ekki að fá þær allar. Þeir vilja fá þær allar sem þeir hefðu átt að fá þá, en með þessu frumvarpi á að taka hluta af þeim og færa til hinna. Það er ákveðið sanngirnissjónarmið en bent var á í nefndinni að það myndi brjóta stjórnarskrána, það stæðist ekki eignarréttarákvæði hennar. Ef hv. þingmaður greiðir atkvæði með þessu frumvarpi eins og það kemur frá ríkisstjórninni er hann að fara í nákvæmlega sömu átt, að færa eignarréttindi, samkvæmt því sem hefur komið fram í nefndinni, frá einum aðila til annars á sama tíma og hann segir að ekki megi færa þessi eignarréttindi frá þeim sem eru að nýta fiskveiðiauðlindina í heild, taka 5% af því og bjóða upp. Það hefur einmitt komið fram í nefndinni að það væri eitthvað sem væri kannski mögulega hægt en ekki væri hægt að taka frá einum aðila og færa á hina eins og gert er í þessu frumvarpi.