149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi breytingar á stjórnarskránni sem eru í samráðsgáttinni, m.a. á auðlindaákvæðinu, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis.“

Um gjaldtökuna segir, með leyfi forseta:

„Koma þar ýmsar leiðir til greina eins og áður var rakið. Ekki er nauðsynlegt að fjárhæð gjalds komi fram í lögum enda kann gjaldið að vera ákveðið með valferli eða útboði þar sem verð og aðrir skilmálar eru ekki fyrirframákveðin.“

Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef hæstv. ríkisstjórn meinar eitthvað með þessari tillögu, eða formennirnir reyndar, hv. þingmaður er í þeim hópi, um ákvæði í stjórnarskrá, hefði ekki verið tilvalið að beita henni á einmitt makrílkvótann og sýna fram á það að með þessa tegund, sem sjálfsagt er að líta sérstaklega á þar sem nú er í fyrsta sinn verið að setja kvótasetninguna í lög, sé rétt að horfa til þessa ákvæðis og grípa til einhverrar fjölbreytni en fara ekki þá sömu leið og hv. þingmaður er búinn að lýsa hér ágætlega, að hygla þeim sömu aftur og aftur og nú þeim stóru á kostnað þeirra minni?