149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:39]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég hefði talið einboðið að við hefðum átt að gera það. En það er líka rétt að draga fram, til að gæta sannmælis í þessu, að stjórnarskrárferlið er þannig að formennirnir koma sér saman um ákveðinn texta, og það byggist náttúrlega á fyrri grunni. Líta þarf til ýmissa þátta, m.a. tillagna stjórnlagaráðs o.fl., en það er ekkert endilega þannig að allir séu sammála því sem stendur í textanum. Ég hefði viljað sjá skarpari ákvæði, m.a. um tímabundna samninga, en það er í greinargerð. Við sjáum síðan hvað kemur út úr þessu en ég gat um það áðan að ég er hrædd um að á endanum, þrátt fyrir mikinn vilja forsætisráðherra til að koma þessu áfram, verði flokkar í ríkisstjórn ásamt Miðflokknum sem koma í veg fyrir að þetta auðlindaákvæði verði að veruleika. Það er það sem ég óttast miðað við það sem á undan er gengið, miðað við umræðuna sem er í tengslum við makríl.

Það er eitthvað sem við þurfum að óttast. Ég hefði einimtt viljað sjá okkur taka makrílinn út fyrir sviga. Ég veit að Samfylkingin reyndi á sínum tíma í vinstri stjórninni að segja að makrílinn ætti að taka aðeins út fyrir og að við ættum að fara nýjar leiðir. Ég hefði viljað sjá það, ég hefði viljað sjá stjórn undir forystu Vinstri grænna fara svipaðar leiðir og Høgni Hoydal í Færeyjum sem hefur farið ákveðnar leiðir uppboðs í þeim fisktegundum þar. Ég hefði viljað að Vinstri græn, sem buðu Høgna Hoydal á landsþing sitt, þar sem hann fór m.a. yfir fiskveiðistjórnarkerfið í Færeyjum, hefðu tekið það til fyrirmyndar og haft forystu um það, beitt sér fyrir því innan ríkisstjórnar, að segja: Gott og vel, kæru vinir, við skulum taka makrílinn út fyrir sviga. Reynum að sýna fram á að við ætlum að leita sátta. Við ætlum að reyna að fara nýjar leiðir, m.a. markaðsleið eða uppboðsleið, til að skoða hvaða áhrif og hvernig áhrif það hefur á fiskveiðistjórnarkerfið. Það er upplagt tækifæri í gegnum makrílinn en það tækifæri er ríkisstjórnin að láta sér úr greipum renna.