149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil koma í andsvar við hv. þingmann vegna þess að mér þykir hún vera frekar tvísaga í málflutningi sínum. Hún talaði mikið um Vinstri græna áðan og okkar miklu völd á Alþingi, að geta lagt fram frumvarp sem væri 100% að vilja og stefnu Vinstri grænna. Það vill svo til að við erum í samstarfi við aðra flokka og erum að vinna samkvæmt því.

Hv. þingmaður talaði um að verið væri að úthluta aflaheimildum núna til eilífðarnóns og svo í andsvari kemur hv. þingmaður upp og svarar á þann hátt að löggjafinn geti hverju sinni með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða breytt úthlutun aflaheimilda. Hvernig getur þetta tvennt samræmst? Getum við ekki þótt síðar verði eða í framtíðinni breytt þessum lögum eins og öðrum lögum? Er verið að úthluta aflaheimildum í makríl til eilífðarnóns? Ég veit ekki betur en að verið sé að úthluta aflaheimildum til eins árs í senn, hvort sem það verður í makríl eða öðrum tegundum.

Ég lét gera fyrir mig samantekt af hæstaréttardómara sem nú er látinn, Magnúsi Thoroddsen, og fyrir liggur það álit hans að löggjafinn getur gert breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu án þess að ríkið sé talið skaðabótaskylt. Það þarf vissulega að gæta meðalhófs og horfa til þess hvernig veiðum hefur verið stjórnað en löggjafinn getur breytt fiskveiðistjórnarkerfinu. Þess vegna þykir mér það með eindæmum að hv. þingmaður, sem er löglærður, tali svona í kross þar sem hún fullyrðir að við séum að úthluta aflaheimildum til eilífðarnóns. Það er bara fráleitt.