149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:44]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einu sinni þannig að því fleiri tækifæri sem renna fram hjá til að tryggja réttindi þjóðarinnar og undirstrika að auðlindir eins og nytjastofnar í hafinu við Ísland séu sameign þjóðarinnar, því ríkari verður bótakrafa útgerðarinnar. Því lengur sem þetta kerfi festist í sessi, því ríkari verður réttur þeirra. Ég hefði frekar talið að Vinstri græn hefðu átt að koma hingað upp og segja að þau vildu forgangsraða rétti þjóðarinnar.

Já, ég óttast að það sé verið að byggja undir eilífðarréttindi, að það verði snúnara fyrir löggjafann að breyta þó að ég taki undir það að við eigum alltaf að hafa þennan rétt. Það verður að sýna meðalhóf en því lengur sem við festum það í sessi að hafa ekki tímabundna samninga verður það snúnara. Ég hefði einmitt haldið að fyrir útgerðirnar væri það fengur að fara svipaða leið og m.a. þáverandi sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, reyndi að fara á sínum tíma en var gerður afturreka af hálfu Sjálfstæðisflokksins, að reyna að gera tímabundna samninga. Það er ekki út af engu sem menn eru að benda á tímabundna samninga. Sjórnarskrárfræðingar hafa líka hafa bent á það þannig að það sé skýrt.

Ég skil ekki þetta metnaðarleysi Vinstri grænna og ég veit að Vinstri grænum svíður sárt að standa að svona frumvarpi eftir að hafa staðið fyrr í vetur fyrir því að stórlækka álögur á útgerðina þrátt fyrir að við höfum talið betra að fara aðrar leiðir. Auðvitað veit ég að það kostar eitt og annað að vera með öðrum flokkum í ríkisstjórn en það er ekki hægt að skýla sér á bak við það eingöngu. Það hefur töluvert að segja hver hefur forystu í ríkisstjórn hverju sinni.