149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir vissulega máli hver hefur forystu í ríkisstjórn hverju sinni og það hefur okkar hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, svo sannarlega sýnt. Það er hún sem hefur barist fyrir því að ná auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá og ná samstöðu um það og hún mun ná því vegna þess að hún hefur verið mjög öflugur talsmaður þess og það styrkir okkar útdeilingu á auðlindum okkar tímabundið hverju sinni.

Mig langar að heyra í hv. þingmanni varðandi þær miklu breytingar sem við Vinstri græn höfum náð fram á þessu frumvarpi í samstöðu. Telur hv. þingmaður ekki að 4.000 tonna pottur sem er miklu meira en veiðst hefur af þeim útgerðum sem stunda veiðar á línu og handfæri sem er kominn inn í það kerfi, hvort það samræmist ekki einhverjum þessum hugmynda um uppboð? Þetta er vissulega til leigu úr þeim potti til þeirra aðila sem veiða á línu og króka. Er hv. þingmaður ekki sama sinnis og við Vinstri græn um að það sé ekki verið að framselja aflaheimildir úr minna kerfinu sem bara veiðist hér við land á línu og handfæri upp í það stóra svo það kerfi tæmist? Það er búið að setja girðingu þarna á milli til þess einmitt að tryggja stöðu þeirra sem veiða á línu og handfæri við strendur landsins til að missa ekki aflaheimildir upp til þeirra stærstu og þeir geti sogað allt til sín í framtíðinni.

Er þetta ekki jákvætt sem við Vinstri græn höfum lagt hér til og fengið stuðning við? Við erum að heimila tegundatilfærslu á milli kerfa til að bjóða þeim sem eru í minna kerfinu upp á að fá tegundir eins og þorsk og aðrar tegundir til skipta innan ársins við makríl. Það er líka mjög til góða að hafa þennan sveigjanleika (Forseti hringir.) svo að ég tel að Vinstri græn hafi vissulega sett sín fingraför á þetta frumvarp langt umfram sinn þingstyrk.