149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:48]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega alveg undrandi á þessari athugasemd hv. þingmanns. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að hún hafi lesið tillögur okkar í Viðreisn varðandi markaðsleiðina þar sem við tókum sérstaklega fram að 5% af heildaraflahlutdeild í makríl fari sérstaklega inn í smábátakerfið og bannað sé að millifæra þar á milli. (Gripið fram í.) Já, þess vegna er ég undrandi á því að hv. þingmaður hafi ekki gert sér grein fyrir því og það er miklu frekar að ég ætli það eftir að við lögðum okkar frumvarp fram að það hafi haft þessi jákvæðu áhrif til breytinga hjá meiri hluta þingmanna. Ég er bara ánægð með það að menn segi: Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur, við skulum breyta því.

Við í Viðreisn drógum það sérstaklega fram í tillögum okkar að taka tillit til einmitt línu- og handfærabáta, taka tillit til þess að byggja undir smábátakerfið af því að við þurfum á því að halda því að það hefur verið skilvirkt. Þess vegna tókum við sérstaklega fram, reyndar aðeins meira en hlutdeildin er núna, að 5% af heildaraflahlutdeild í makríl fari inn í smábátakerfið í markaðsleið þar, sem verði síðan ekki millifærð inn í stóra kerfið. Við erum sammála þar og það er ágætt. Ég er ánægð með þær breytingar sem hafa komið. Prinsippin eru eftir sem áður til staðar þar. Það er ekki verið að tímasetja og tímabinda aflaheimildir, það er hættulegt og ég vara við því.

Eftir því hvernig gangurinn í þinginu hefur verið og eftirgjöfin sem hefur verið alveg með endemum gagnvart Miðflokknum miða ég við að það hafi bara ekki nægilega sterk áhrif inn í allar stjórnarskrárbreytingar en þess þá heldur er það ekki þannig að við í Viðreisn reynum ekki að nálgast málin málefnalega og lausnamiðað. Við munum halda áfram okkar vinnu í stjórnarskrárvinnunni og mér sýnist að í stjórnarskrárvinnunni eigi Viðreisn og Vinstri græn (Forseti hringir.) meira sameiginlegt en margir aðrir flokkar.