149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[11:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér með örstuttri ræðu í þessa umræðu. Vonandi tekst mér að halda mig frá pólitískum skylmingum um nákvæmlega þetta mál.

Hér hefur verið vikið að eða komið nálægt grundvallaratriðum varðandi fiskveiðilöggjöf okkar og meðferð þeirra mála með þeim hætti að ég finn mig knúinn til að segja nokkur orð um grundvallaratriði þess máls, sérstaklega það að það særir mig þegar menn tala niður hin skýru sameignarákvæði sem lög um stjórn fiskveiða geyma og hæstaréttardómar og framkvæmd hafa á margan hátt undirstrikað að eru til staðar. Ég vil meina að við sem erum þeirrar skoðunar að að sjálfsögðu eigi þjóðin að eiga saman náttúruauðlindir af þessu tagi og fyrir hönd hennar fari löggjafinn með það að setja leikreglur um nýtinguna, að við eigum ekki að tala niður þá stöðu. Það særir mig að heyra það gert. Og bara til að það sé sagt einu sinni enn: Útgerðir með veiðireynslu eiga ekki einkaeignarréttarvarinn, stjórnarskrárvarinn, rétt. Þær eiga það ekki. En þær eiga vissulega áunnin réttindi, atvinnutengd réttindi, og þær hafa verið í góðri trú. Það er ekki hægt að strika þau út nema að uppfylla tiltekin sjónarmið um meðalhóf og sanngirni. Jafnvel þó að þetta væri stjórnarskrárvarinn einkaeignarréttur er hægt að leysa hann til þjóðarinnar. Það hafa bæði innlend og erlend fordæmi sýnt, en þá verða menn sennilega að sætta sig við enn lengri tíma og gera það með enn mildari hætti gagnvart þeim hlutum. Noregur gerði þetta á sínum tíma með virkjunarréttindi, hin frægu „Hjemfallslov“. Þau hafa staðist tímans tönn og Noregur endurheimti í eigu norsku þjóðarinnar á 70 árum réttindin yfir vatnsaflinu. Að sjálfsögðu gætum við Íslendingar gert slíkt hið sama, jafnvel þótt dómar féllu á þá vegu að hér hefði myndast tímabundið einkaeignarréttur. En það hefur ekki gerst, sem betur fer, og við eigum að standa þar og tala fyrir því og láta þá aðra um að sækja á það.

Að sjálfsögðu er ég stuðningsmaður þess að þetta komi inn í stjórnarskrá til að skírskota og undirstrika þetta enn betur. Í mínum huga breytir árleg úthlutun veiðiréttar þótt í ótímabundnum lögum sé engu um þetta. Það er fyrirkomulagsatriði. Menn hafa sumir talað þannig að smátt og smátt myndi einhvers konar óbeinn eða jafnvel síðar beinn einkaeignarréttur fara að myndast en ég er ósammála því og ég tel hættulegt að tala þannig vegna þess að þá stöndum við ekki vörð um hin skýru sameignarákvæði í lögum. Alþingi sem löggjafi hefur mjög sterka stöðu til að setja leikreglur og það er hafið yfir allan vafa að hægt er að gera það. Þess vegna á tal um einhver eilífðarréttindi ekki við hér. Það er sömuleiðis eitthvað sem við eigum ekki að taka okkur í munn.

Það er vissulega rétt að stjórnvöldum hefði getað tekist betur til í þessum efnum og eftir á að hyggja og í ljósi dóma hefði verið traustara að setja lagastoð undir tímabundna stjórn makrílveiða alveg frá árunum 2010 og 2011 og til dagsins í dag. Það er fyrst og fremst vegna þess að úthafsveiðilögin eru meingölluð að þessu leyti og þau taka á engan hátt á því hvernig á með málefnalegum hætti að takast á við það þegar t.d. nýjar tegundir mæta inn í lögsöguna. Reyndar á það sama við um lög um stjórn fiskveiða þegar menn hefja nýtingu á nýjum tegundum. Auðvitað eiga að vera skýr og sérstök lagaákvæði um það hvernig því er þá tímabundið stýrt yfir eitthvert langt árabil þangað til að menn eru þá sáttir við að myndast hafi það jafnvægi og jafnræði milli aðila að menn geti farið að byggja á varanlegra fyrirkomulagi. Í tilviki makrílsins tel ég reyndar mjög skrýtið að sú stjórn sem viðhöfð hefur verið undanfarin ár skyldi ekki standast dóm, m.a. af þeim ástæðum að þetta er stofn sem við deilum með öðrum og það er ósamið um endanlega hlutdeild Íslands í stofninum. Hvers vegna hefði yfir höfuð átt að vera að úthluta því með varanlegum hætti meðan svo var? Að mínu mati kallar það eitt og sér á að það hefði átt að vera, vissulega betra, byggt á lögum, heimildir til að stýra tímabundið veiðunum á þessum tíma.

Það er alveg rétt sem hér kom fram að þeir sem í frjálsum veiðum hófu veiðar á þessari tegund mynduðu með því ákveðin sögulegan rétt. Þeir bjuggu til rétt fyrir landið, hvort tveggja rétt, og til þess verður að horfa vegna þess að kröfur okkar um, ég tala ekki um 16% og þó að það væru bara 12% af makrílnum í Norður-Atlantshafinu, byggja að sjálfsögðu á því að við höfum sýnt fram á tvennt, að við getum veitt hann og að hann hefur komið hingað inn í okkar lögsögu. Þar skiptir þessi réttur máli. Samt er ekki sjálfgefið að þeir sem fóru fyrstir til veiðanna, áunnu sér rétt og áunnu landinu rétt, eigi að sitja einir að honum um aldur og ævi. Það er ekki sjálfgefið. Við höfum nýleg dæmi um það í sögunni að löggjafinn hefur áður litið svo á að þá þurfi að líta til ýmissa jafnræðis- og sanngirnissjónarmiða. Það er þegar norsk-íslenska síldin hóf aftur að veiðast á Íslandi 1994 og á árunum þar á eftir. Auðvitað voru það stór skip sem sóttu fyrstu síldarfarmana eftir 30 og eitthvað ára hlé út í síldarsmugu. En menn sögðu: Já, en bíðum við, þetta er norsk-íslenska síldin sem allur íslenski flotinn veiddi á gömlu síldarárunum og ef við ætlum að fara að búa til fyrirkomulag um það hvernig við útdeilum réttindum í þessum veiðum sem hafa þá hafist á nýjan leik verðum við að taka tillit til þess. Niðurstaðan var blönduð, hún var málamiðlun milli þeirra sem höfðu veitt í frjálsum veiðum og þess að allur flotinn ætti með vissum hætti eðlilega hlutdeild í þessu, þ.e. þau skip sem væru yfirleitt búin út til slíkra veiða. Þannig var svo að lokum gengið frá hlutdeildinni í norsk-íslenska síldarstofninum. Hið sama á að mörgu leyti við hér, en það þurfa að vera málefnalegar leikreglur og langheppilegast væri að gefa því langt aðlögunartímabil þar til menn byggju til eitthvert varanlegra fyrirkomulag. Að sjálfsögðu eiga minni bátar sem geta veitt makríl alveg upp við ströndina að eiga hlutdeild í því úr því að nú hefur sannast að þær veiðar ganga vel og geta verið ábatasamar, að sjálfsögðu. Þar af leiðandi hljótum við að þurfa að finna málefnalega leið til að deila þessum réttindum einhvern veginn þannig út að allir fái sanngjarnan hlut.

Ég tel þetta frumvarp, svo það sé sagt, með þeim breytingum sem atvinnuveganefnd er að leggja til mjög góða nálgun í þeim efnum og er algjörlega sáttur við hana og styð hana.

Þá er eitt eftir að nefna, það eru mögulegar skaðabætur sem útgerðaraðilar ætla nú að fara að sækja sér, stórir eða smáir.

Ég vil segja um það mál og tala íslensku að það verður þeim útgerðum til skammar sem ætla að fara að sækja sér fjármuni til skattgreiðenda þegar verið er að færa þeim gríðarlega verðmæt réttindi og réttindi sem þær hafa notið undanfarin ár, því að skaðabótamennirnir verða væntanlega þeir sem hafa haft af því góða afkomu að veiða makríl undanfarin ár og munu gera í framtíðinni. Ég öfunda ekki þá eigendur eða stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem ætla að bjóða íslensku þjóðinni upp á það. Tal um milljarða- eða milljarðatugaskaðabætur er fráleitt vegna þess að þetta verða aðilar sem hafa veitt og haft góða afkomu af því að veiða makríl. Hefðu þeir getað grætt aðeins meira undanfarin ár? Já, hugsanlega, sumir þeirra ef þeim hefðu verið færð aðeins meiri réttindi, en þeir þurfa þá að sanna það. Það tjón liggur ekki fyrir. Ætli sé ekki rétt að draga gróðann á undanförnum árum frá kröfunni? Ætli það ekki og framreikna eitthvað ávinningana inn í framtíðina sem þessum hópi verður þá færður?

Ég kvíði ekki sérstaklega fyrir hönd ríkisins því þó að einhverjir gerist svo smáir að ætla að fara í skaðabótamál út af þessu, ég geri það ekki sérstaklega og óska þeim (LRM: Ekki velfarnaðar.) ekki velfarnaðar í því máli en segi bara: Verði mönnum að góðu.

Varðandi eignarréttinn að einu leyti aftur finnst mér alveg gleymast í þessari umræðu að nú tökum við auðlindagjöld af sjávarútveginum. Á hvaða grunni gerum við það? Að þjóðin á auðlindina og það er sanngjarnt að menn borgi fyrir hana. Það stríð er unnið. Það vannst 2012. (KÓP: Heyr, heyr.) Það er ekki lengur rifist um það að Alþingi getur sett með málefnalegum hætti leikreglur um að menn borgi fyrir þann aðgang sem þeir fá að þessari auðlind. Undirstrikar það ekki nægjanlega það sem við höfum verið að tala um, að menn eiga þetta ekki sjálfir? Jú, ég held það. Fari svo að útgerðin fái sér dæmdar, stór eða smá, einhverjar skaðabætur legg ég til að hún borgi þær skaðabætur sjálf í formi hærri auðlindagjalda á komandi árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)