149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[12:02]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég hef ekki verið sérstaklega glöð með það þegar forseti stígur niður úr stólnum og tekur þátt í umræðunni en þegar svona ræður koma — ég er ekki endilega sammála öllu sem hv. þingmaður sagði en það sem hann sagði var mikilvægt og merkilegt. Þar var ákveðinn kjarni, skilaboð sem ég hef ekki heyrt nægilega skýrt frá ríkisstjórninni. Hv. þingmaður getur bara skammað mig fyrir það, en þarna eru prinsippatriði sem eru svo mikilvæg og voru sögð á hreinni og góðri íslensku.

Það sem ég hef verið að tala um og menn hafa verið að segja varðandi eilífðarréttindin er að um tímabundinn rétt til aflahlutdeildar — sett voru ákveðin lög á níunda áratugnum. Um þau var mikill ágreiningur, eins og hv. þingmaður þekkir vel. Skipuð var auðlindanefnd undir forystu Jóhannesar Nordals. Kjarni niðurstöðu þeirrar nefndar var mjög skýr og hún skilaði árið 2000. Þar voru fulltrúar allra flokka einhuga um niðurstöðuna og kjarninn var annars vegar sá að réttur til veiða úr sameiginlegri auðlind skyldi vera tímabundinn. Það var annar af tveimur meginkjörnum úr niðurstöðunni. Hins vegar skyldi gjald koma fyrir réttindin og taka mið af tímalengd þeirra, þ.e. tímalengdin væri hluti af verðmæti eða upphæð gjaldsins. Annars vegar átti að tímabinda réttindin og hins vegar að koma auðlindagjald fyrir. Sem betur fer erum við orðin sammála um auðlindagjald. Við getum þráttað um aðferðir, hvort það er markaðsleið eða uppboðsleið en við erum sammála um auðlindagjöldin.

Það sem við í Viðreisn leggjum til er að fylgja eftir þeim kjarna sem kemur fram hjá auðlindanefndinni. Auðlindanefndin gefur ekki neinar vísbendingar um hvaða leiðir er best að fara í að tímabinda, þannig að við förum í það og förum í stjórnsýsluréttinn, förum í stjórnarskrána. Hvert er meðalhófið? Þess vegna leggjum við til 20 ára samninga af því að útgerðin þarf líka að hafa ákveðinn fyrirsjáanleika til lengri tíma upp á það (Forseti hringir.) að geta byggt upp áætlanir o.s.frv. Það er kjarninn hjá okkur en gagnrýni okkar á þetta frumvarp er m.a. að við óttumst að ef tímabundnir samningar eru ekki gerðir festist annar réttur í sessi sem mér hugnast ekki.