149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki ósammála því að það sé eðlilegt fyrirkomulag að hafa einhver tímamörk í þessu. Það eru mörg góð og gild rök fyrir því, t.d. þau að stjórnvöld þurfi alltaf á hverjum tíma að passa upp á og áskilja sér rétt til breytinga innan einhverra ekki of rúmra tímamarka, ef aðstæður breytast, ef sjónarmið breytast, það kalli eitthvað á að við breytum. Þess vegna mega menn aldrei vera í of góðri trú um að þeir hafi eitthvað í óbreyttu formi um aldur og ævi, hvorki leyfi til að vera með fiskeldi né sækja fisk.

Ég vil helst ekki að við tölum um það sem úrslitaatriði gagnvart sameignarelementi þjóðarinnar. Menn verða að hafa í huga hvers vegna þetta er verðmæt auðlind. Er það bara vegna þess að fiskur er í sjónum og það eru einhverjir sem eiga skip sem geta sótt hann? Verður þetta verðmæt auðlind um aldur og ævi, bara vegna þess? Nei, þar kemur m.a. við sögu einfaldlega fullveldisréttur ríkisins. Þar kemur við sögu að löggjafi er í landinu sem setur leikreglur. Þar kemur við sögu að við erum með verndunaraðgerðir til að tryggja viðhald auðlindarinnar. Þar kemur við sögu að við erum fullvalda ríki, gerum samninga við aðrar þjóðir um viðskipti sem gera það að verkum að hægt er að selja þennan fisk á góðu verði. Þar kemur við sögu að við erum með regluverk, heilbrigðisreglur og gæðareglur sem tryggja að vörur okkar fara vottaðar og viðurkenndar beint inn á verðmæta markaði. Ekkert þetta gerist sjálfkrafa bara vegna þess að það er til fiskur og það eru til skip.

Það er að lokum þannig að sjálfsögðu að það er sameiginlegt og sameignarverkefni að gera þessa auðlind verðmæta, passa upp á hana og nýta hana með skynsamlegum hætti um aldur og ævi. Þess vegna á þetta einkaeignarréttartal og eilífðarréttartal bara alls ekki við. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)