149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[12:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Hæstv. forseti. Í dag verður vonandi stigið stórt skref í átt til mikilla réttarbóta fyrir alla á Íslandi og enn stærra skref í átt að afnámi mismununar gagnvart fötluðu fólki í íslenskum lögum. Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt hér í dag hefst ferli sem ég hef barist fyrir allt frá mínum fyrsta degi á Alþingi og raunar töluvert lengur, allt frá því að ég komst að því hvað fatlað fólk og fólk sem er geðveikt eða talið er geðveikt hefur veika réttarstöðu og veikari réttarvernd í réttarríkinu Íslandi. Skýrustu dæmin um þetta óréttlæti í íslenskum lögum er að finna í lögræðislögunum okkar sem innihalda fjölda ákvæða sem fela í sér beina lagalega mismunun gagnvart fötluðu fólki.

Ég vil af þessu tilefni, virðulegi forseti, rifja upp mína fyrstu ræðu í þessum ræðustól sem var einmitt tileinkuð endurskoðun lögræðislaga. Þar sagði ég, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Við þingsetningu undirritaði ég drengskaparheit að stjórnarskránni. Það er því ekki úr vegi að mitt fyrsta ávarp á Alþingi varði verndun mikilvægra réttinda sem þar er að finna. Hér vísa ég, með leyfi forseta, til 65. gr. stjórnarskrárinnar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum.“

Ég vek athygli þingsins á þessari grein vegna þess að ekki eru allir jafnir fyrir lögum á Íslandi og því verður að breyta. Ég vísa hér einna helst til lögræðislaga en þar er að finna ýmis ákvæði sem mismuna fólki á grundvelli fötlunar. Má þar nefna 19. gr. laganna sem heimilar frelsissviptingu, svokallaða nauðungarvistun einstaklings, á þeim grunni einum að hann sé, með leyfi forseta, „haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms“.

Ekki er að finna í lögræðislögunum önnur skilyrði til slíkrar frelsissviptingar og því verð ég að taka undir ítrekaðar ávirðingar Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum sem bent hefur á að ákvæðið feli í sér lagalega mismunun gagnvart fólki með geðsjúkdóma. […]

Herra forseti. Þessi lög eru ólög. Þau standast hvorki stjórnarskrá né samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég bið því hv. þingmenn alla að leggja mér lið til að fá þeim breytt við fyrsta tækifæri.“

Virðulegi forseti. Ég er bjartsýn á að meiri hluti þingmanna muni leggja mér lið síðar í dag og greiða atkvæði með samþykkt þessarar tillögu sem felur í sér að skipa skuli þverpólitíska nefnd þingmanna frá öllum flokkum sem hafi það hlutverk að framkvæma heildarendurskoðun á lögræðislögum sem samrýmist samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem við höfum undirgengist að virða. Það gleður mig sérstaklega að hv. allsherjar- og menntamálanefnd sé öll sammála mér um mikilvægi og nauðsyn þess að endurskoða lögræðislögin og kann ég nefndinni miklar þakkir fyrir sína góðu vinnu í þessu máli, vinnu sem raunar leiddi til þess að umboð umræddrar þingmannanefndar var útvíkkað til að leggja heildstætt mat á þær lagaheimildir og regluverk sem gilda um frelsissviptingu, þvingaða meðferð og aðrar frelsisskerðingar sem fatlað fólk, notendur heilbrigðiskerfisins, fólk með geðveiki og fólk sem er talið vera geðveikt er beitt. Þetta er mikið fagnaðarefni, virðulegi forseti, því að vissulega þarf miklu meira til en endurskoðun lögræðislaga til að tryggja jafnrétti og virðingu fyrir mannréttindum þeirra hópa sem geta átt á hættu að sæta þvingaðri meðferð eða frelsissviptingu vegna heilsufarsástæðna á Íslandi.

Ég taldi gott fyrsta skref að byrja á endurskoðun lögræðislaga því að þar er að finna svo skýr dæmi um misrétti og brot á mannréttindaskuldbindingum, en auðvitað eru víða lagaákvæði og skortur á lagaheimildum í íslenskum lögum um rétt fólks, sér í lagi fólks með fötlun en líka fólks sem talið er geðveikt eða bara yfir höfuð notendur heilbrigðiskerfisins sem geta ekki endilega staðið vörð um réttindi sín. Fjöldamörg dæmi má finna í íslenskum lögum um að ekki séu nógu góðar lagaheimildir fyrir beitingu þvingaðrar meðferðar, frelsissviptingar, frelsisskerðingar eða þá að lagaheimildir fyrir beitingu þessara skerðinga eða þvingana eru einfaldlega ekki til staðar. Það er að sjálfsögðu ólíðandi í réttarríki, herra forseti, að það fyrirfinnist stórir hópar í þjóðfélaginu okkar sem njóta ekki sannmælis, njóta ekki réttarverndar, njóta ekki líkamlegrar friðhelgi eða sömu réttinda til bestu mögulegu heilsu og þeir sem auðveldara eiga með að standa vörð um réttindi sín.

Það er því mjög gleðilegt að þessari þverpólitísku þingmannanefnd verði líka falið að gera úttekt á öllum þeim lögum og því regluverki sem gildir um beitingu þvingana og þvingaðrar meðferðar á Íslandi. Það er löngu tímabært og það er líka löngu tímabært að réttindi fólks, sér í lagi réttindi fólks með geðsjúkdóma, séu betur tryggð og séu í samræmi við skuldbindingar okkar. Þá vísa ég sérstaklega í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en einnig í mannréttindasáttmála Evrópu hvers 3. gr. segir fyrir um bann við pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem við tryggjum ekki nógu vel, þ.e. jákvæða skuldbindingu okkar, til að koma í veg fyrir slíka meðferð miðað við núverandi lagaumhverfi, sömuleiðis 5. gr. sem tryggir öllum rétt til frelsis. Þegar að þeirri grein kemur standa t.d. lögræðislögin okkar á mjög veikum grunni hvað varðar málsmeðferðarréttindi fólks með fötlun og þeirra sem taldir eru geðveikir og eru nauðungarvistaðir, lögræðissviptir, sjálfræðissviptir eða fjárræðissviptir. Við byggjum á mjög úreltu hugarfari með þeim lögræðislögum sem við höfum í dag en líka eru margir aðrir lagabálkar úr sér gengnir þegar kemur að réttindum fólks sem er notendur heilbrigðiskerfisins á einn eða annan hátt eða þeirra sem hafa vegna andlegrar vanheilsu verið dæmdir ósakhæfir brotamenn. Um þá og þeirra málsmeðferð gilda örfáar greinar almennra hegningarlaga sem eru heldur betur komin til ára sinna. Það er allt of lítið gert til að tryggja að þessir einstaklingar séu ekki frelsissviptir lengur en þörf er á og að þeir séu ekki beittir þvingaðri meðferð, þvingaðri lyfjameðferð og þvingaðri læknismeðferð án lagaheimildar, án þess að það sé nauðsynlegt, án þess að það sé síðasta úrræðið, í raun og veru án nokkurra lagalegra skilyrða.

Þetta er staðan á Íslandi í dag og í dag erum við líka að stíga skref í átt að því að breyta þeim veruleika mæti CPT-nefndin hingað eða Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hún kom einmitt hingað í heimsókn bara fyrir mánuði eða svo. Vonandi hættum við að fá jafn neikvæða umsögn frá henni um lögin sem gilda um lögræði, nauðungarvistanir og líka vistun ósakhæfra brotamanna og þeirra meðferð, eins og við höfum fengið allt frá því að nefndin kom í fyrsta sinn í heimsókn til okkar árið 1994. Tilmælin frá þeirri nefnd hafa alltaf verið þau sömu, að lögræðislögin mismuna fólki á grundvelli fötlunar. Lögræðislögin heimila frelsissviptingu á þeim grunni einum að viðkomandi sé mögulega talinn vera geðveikur. Það er ekki ásættanleg heimild til frelsissviptingar í réttarríki og með samþykkt þessarar tillögu í dag stígum við einu skrefi nær því að afnema þau ólög sem gilda í dag.