149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[12:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Loksins kemst tillaga um að líta sérstaklega til Suðurnesja til afgreiðslu þingsins, tillaga um að meta stöðu samfélaganna sem eru um margt sérstök og hafa miklar sveiflur verið í atvinnulífi á undanförnum árum og áratugum. Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa komið fyrir fjárlaganefnd árum saman til að benda á að vitlaust sé gefið þegar ríkisfjármunum sé skipt á milli landshluta og að Suðurnesin hafi ekki notið sannmælis hvað það varðar. Fyrirtækið Aton gerði ítarlega greiningu fyrir Reykjanesbæ á fjárframlögum til stofnana svæðisins og verkefna á vegum ríkisins sem Alþingi verður að taka alvarlega, sannreyna og bregðast við með aðgerðaáætlun til að bæta og styrkja stöðu Suðurnesjamanna. Mörg dæmi má nefna sem benda til þess að sveitarfélögin hafi rétt fyrir sér.

Athyglisvert er t.d. dæmið sem dregið er fram í nefndarálitinu og kom fram í ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um ábendingu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í umsögn um tillöguna um að á meðan fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu fjölgaði íbúum svæðisins um 15%. Slík skekkja kemur augljóslega niður á heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn, ég tala nú ekki um þegar stofnunin var fjársvelt fyrir þessa miklu fjölgun. Augljóslega hefur þessi staða komið niður á þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar við Suðurnesjamenn.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem fari heildstætt yfir stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum með tilliti til íbúafjölgunar og samsetningar íbúa, að samfélagsleg áhrif fólksfjölgunarinnar verði könnuð og sérstakt mat lagt á hvort fjárframlög til ríkisstofnana á svæðinu hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum, hvort sem er félagslegri eða efnahagslegri. Það er einnig nauðsynlegt að meta áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu og færri flugferða um Keflavíkurflugvöll á sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Þegar mælt var fyrir þessari tillögu í haust var fall WOW ekki komið fram og ekki augljóst í hvað stefndi en nú hefur enn bæst við staða sem þarf að meta og mun koma niður á íbúum Suðurnesja. Keflavíkurflugvöllur er nefnilega stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum og staða hans hefur mikil áhrif á samfélögin. Það er því mikilvægt að breytingar, hvort sem eru aukin umsvif á undanförnum árum eða samdráttur sem nú stendur yfir, verði metnar skipulega.

Samfylkingin gerði það að forgangsmáli sínu á þessu þingi að fá hæstv. ríkisstjórn til að gera tímasetta áætlun til að bæta stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Ég er 1. flutningsmaður málsins en að þessu sinni eru þingmenn Suðurkjördæmis meðflutningsmenn mínir. Tillagan hefur áður verið lögð fram af þingflokki Samfylkingarinnar en fékk þá ekki brautargengi. Nú fær tillagan forgang eingöngu vegna þess að Samfylkingin valdi málið sem forgangsmál, bæði í haust þegar ég mælti fyrir því og kom því til nefndar og nú við frágang þinglokasamninga þegar Samfylkingin kom málinu út úr nefnd til samþykktar. Annars hefði málið dagað uppi og það er sorglegt til þess að hugsa en það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir því að okkur hafi tekist að greiða fyrir málinu. Það er reyndar við hæfi að það hafi verið gert fyrir tilstilli jafnaðarmanna því að málið snýst um að jafna stöðu Suðurnesjamanna, hvort sem er meðal ólíkra hópa samfélagsins eða við aðra landshluta.

Suðurnesjamenn eiga það skilið að nú sé litið sérstaklega til þess landshluta eins og þeir hafa kallað eftir árum saman.