149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[12:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, það er fagnaðarefni að þessi tillaga skuli nú fá hér afgreiðslu. Það má segja að lengi hafi verið beðið eftir henni enda þörfin brýn. Fólksfjölgun á Suðurnesjum er fordæmalaus sem hefur skapað mikið álag á innviði samfélagsins þar. Það er tilefni til þess úr þessum ræðustól að þakka sérstaklega því starfsfólki þessara sveitarfélaga sem hefur unnið frábært starf undir miklu álagi við að mæta öllum þeim kröfum og áskorunum sem fylgja því þegar svo fordæmalaus og hröð fólksfjölgun á sér stað eins og á Suðurnesjum. Hlutfall erlendra íbúa er mjög hátt á Suðurnesjum. Því fylgir auk þess mikið álag á grunnskóla, leikskóla o.s.frv. Því miður verður ekki það sama sagt um ríkisvaldið, að það hafi staðið sig sérstaklega vel í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa ríkt á Suðurnesjum. Við þekkjum það og það hefur komið fram í ræðum og riti víða, m.a. frá forsvarsmönnum Reykjanesbæjar, að ríkisvaldið hefur ekki staðið sig sem skyldi í því að fylgja eftir með fjárveitingum og aukningu vegna þessarar fólksfjölgunar. Ég nefni sérstaklega Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, löggæsluna og fjölbrautaskólann, þetta eru allt opinberar stofnanir sem hafa þurft að mæta þessu mikla álagi en ekki mætt nægilegum skilningi af hálfu ríkisvaldsins hvað það varðar. Þessari tillögu er m.a. ætlað að fara nákvæmlega yfir það hvernig fjárveitingum ríkisins er háttað til þessara stofnana á Suðurnesjum og leggja mat á það hvort fjárframlögin hafi fylgt þróun mála á Suðurnesjum. Ég tel að svo hafi ekki verið og Reykjanesbær hefur sýnt fram á það, m.a. með mjög vandaðri skýrslu. Hluti þessa starfshóps er að fara yfir það og það er bara gott mál.

Ég fagna þessari tillögu og ég fagna að sjálfsögðu frumkvæði Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og ég vil hrósa hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir framgöngu hennar í málinu. Frá því að tillagan var lögð fram hefur margt gerst og því miður kannski á verri veg hvað atvinnuhorfur varðar á Suðurnesjum. Flugfélagið WOW varð gjaldþrota og því hefur fylgt mikill samdráttur í komu ferðamanna til landsins. Rétt er að hafa í huga að í maímánuði var u.þ.b. 24% samdráttur í komu erlendra ferðamanna til landsins og það er mesti samdráttur sem um getur frá því að talningar hófust þannig að það eru blikur á lofti í þessari grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og hún snertir Suðurnesin alveg sérstaklega. Þess vegna er afar ánægjulegt að tillagan fái hér afgreiðslu á þessum tímapunkti því að það er svo sannarlega þörf fyrir hana. Ég tek undir það sem kom frá framsögumanni umhverfis- og samgöngunefndar, það er brýnt að nefndin skili af sér sem fyrst.

Það er annað í þessu líka sem er að vísu áhyggjuefni, ég sé engin teikn í fjármálaáætlun um að það eigi að mæta sérstaklega þessum áhyggjum hvað varðar fjárveitingar til opinberra stofnana á Suðurnesjum. Ég vil þó geta þess að í fjármálaáætlun sem kom bara úr prentsmiðjunni í morgun er gert ráð fyrir sérstöku framlagi árlega upp á 315 milljónir, minnir mig, til framkvæmda á hinu svokallaða varnarsvæði sem er á höndum Landhelgisgæslunnar til viðhalds á varnarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli. Þetta er mikilvægt framlag sem ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa sett inn í fjármálaáætlunina. Það var ekki þar. Við ræddum málið í fjárlaganefnd og ég hef m.a. verið talsmaður þess að framlagið kæmi inn vegna þess að því fylgir töluvert mótframlag af hálfu Atlantshafsbandalagsins sem gerir það að verkum að þarna er komin dágóð upphæð til að nota í brýn viðhaldsverkefni á Keflavíkurflugvelli, þ.e. varnarhluta svæðisins, og verður þá væntanlega atvinnuskapandi.

Síðan eru fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum Bandaríkjahers sem mér skilst að verði til þess að einhverjir íslenskir starfsmenn verði þar ráðnir. Bandaríkjaher bauð út framkvæmdir við flugskýli á svæðinu og bandarískur verktaki bauð lægst. Ég spjallaði við fulltrúa á vegum bandaríska sjóhersins hér á landi um þetta mál og hann fullvissaði mig um að til stæði að ráða íslenska verkamenn að því verkefni og vonandi gengur það eftir. Þetta er jákvætt og rétt að það komi hér fram. Ég þakka ríkisstjórninni fyrir að hafa komið með þetta framlag á síðustu metrum fjármálaáætlunarinnar.

Í þessu árferði suður frá, þ.e. þessari miklu fjölgun íbúa og ég vil líka nefna fjölgun hælisleitenda, hefur álag á löggæsluna aukist mikið sem hefur gert það að verkum að hinn almenni borgari á svæðinu fær kannski ekki nægilega góða þjónustu vegna þess að mjög mikill tími hefur farið í að sinna verkefnum þar. Þetta hef ég frá stjórnendum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í því tilliti er líka nauðsynlegt að mæta þessum opinberu stofnunum með hærra fjárframlagi.

Það sem er kannski mesta áhyggjuefnið er hinn mikli fyrirsjáanlegi samdráttur í ferðaþjónustunni og hvernig hann kemur til með að þróast. Það er svolítil óvissa í þeim efnum. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa áhyggjur af því að samdrátturinn verði dýpri og meiri en stjórnvöld áætla og meiri en fram kemur í spám þannig að haustið og veturinn er vissulega áhyggjuefni fyrir Suðurnesin hvað þetta varðar. Þess vegna er í mínum huga mjög mikilvægt, eins og ég sagði áðan, herra forseti, að nefndin skili af sér sem fyrst en auk þess þurfa fjárveitingar að fylgja verkefninu. Nefndin kemur væntanlega með einhverjar tillögur í þeim efnum þannig að því fyrr sem þær koma betra því betra svo það sé hægt að bregðast við með réttum aðgerðum.

Að lokum vil ég bara enn og aftur þakka fyrir þessa tillögu. Ég hef töluverðar væntingar til þess að starfshópurinn komi með góðar og haldbærar tillögur sem gætu orðið til þess að mæta þeim áhyggjum sem fram hafa komið af hálfu stjórnenda Reykjanesbæjar og fleiri sveitarfélaga á svæðinu og líka því sem við horfumst í augu við núna, þ.e. hinum mikla samdrætti í ferðaþjónustunni, þannig að við vonum svo sannarlega að þessi starfshópur komi til með að skila góðu verki.