149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

187. mál
[13:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum að ræða þessa mikilvægu tillögu sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir leggur fram; hún skal hafa miklar þakkir fyrir það ásamt flestum þingmönnum kjördæmisins, það er vel. Það hefur verið gaman að taka þátt í að vinna að þessari tillögu í meðförum þingsins og að þeim málum sem tillagan fjallar um þar sem þingmenn úr öllum kjördæmum og ráðherra og þingmenn í öðrum þingnefndum hafa tekið vel í þetta. Ég vil líka þakka aðkomu sveitarfélaganna, sveitarstjórnarfólksins og starfsmanna þeirra, og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sérstaklega fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt í það, bæði að undirbúa þá vinnu sem hér er og líka að vekja athygli á þeirri stöðu sem er á Suðurnesjum. Það hafa þau gert með úttektum og þau hafa verið dugleg að koma í heimsókn í ráðuneytin til ráðherranna og starfsfólks ráðuneytanna og kynna stöðuna og þær upplýsingar sem þau hafa aflað og upplýsa þingmenn og þingnefndirnar almennt um þessa stöðu því að þetta er afar mikilvægt.

Við fjölluðum líka um það í byggðaáætluninni, þegar hún var til umræðu hér, hversu mikilvægt væri að fjalla ekki bara um brothættar byggðir í þeim skilningi að þar væri íbúum að fækka og ekki væri mikið að gerast í atvinnumálunum, heldur þyrfti líka að nálgast þær sem mikil vaxtarsvæði. Suðurnesin eru og hafa verið mikið vaxtarsvæði. Þó að kannski hafi aðeins hægt á því nú er þar enn mikill vöxtur og verður. Ég hef mikla trú á því þó að nú hafi aðeins hægst á og atvinnuleysi aukist. Þá skal nefna að það sem er kannski öðruvísi á Suðurnesjum en á öðrum svæðum á landinu er hve uppbyggingin er mikil og mikil atvinnustarfsemi þar en starfsfólkið sem um ræðir býr kannski töluvert fyrir utan svæðið. Þeir sem eru í hvað hæst launuðu störfunum á Suðurnesjum búa á höfuðborgarsvæðinu en alla jafna ekki á Suðurnesjunum sjálfum. Það hefur gert það að verkum að í gegnum tíðina hafa meðallaun á Suðurnesjum verið töluvert lægri en annars staðar á landinu. Það gerir sveitarfélögunum á Suðurnesjum enn erfiðara fyrir að bregðast við þeim mikla vexti og umsvifum sem fylgja þessari miklu uppbyggingu. Á Suðurnesjum hefur íbúum fjölgað einna mest á landinu og því fylgja miklir vaxtarverkir. Þegar umsvifin aukast umfram íbúaþróunina, sem er samt mikil, verða enn meiri vaxtarverkir. Þar vil ég fyrst og fremst nefna samgöngurnar og svo opinbera þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Þá er gríðarlega mikilvægt að takast á við þetta og til að þessi þróun haldi ekki áfram, að meðallaun séu lægri á Suðurnesjum en annars staðar, verður menntakerfið að fylgja líka. Það verður að vera öflugt menntakerfi.

Þegar við förum í þá vinnu sem þessi þingsályktunartillaga kveður á um, og þegar við erum almennt að skoða þessi svæði varðandi byggðaáætlunina og annað slíkt, verður að hafa í huga að það verður að vera öflug grunnþjónusta og sveitarfélögin þurfa að hafa bolmagn til að takast á við þennan mikla vöxt og þessa þróun. Þessi mikla íbúafjölgun sker sig líka frá mörgum öðrum sveitarfélögum í því tilliti hve innflytjendur eru hátt hlutfall. Það gerir íbúaþróunina fjölbreyttari og þar af leiðandi eru fleiri áskoranir sem þarf að takast á við. Þetta eru áskoranir sem er mikilvægt að stjórnvöldum takist, bæði stjórnendum heima í héraði og stjórnvöldum ríkisins, að leysa vel úr svo að samfélagið megi þróast sem best, að við nýtum krafta fólksins sem best og tryggjum því sem mesta velferð.

Í þessu samhengi vil ég nefna að nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar eru af yfir 60 þjóðernum og tala meira en 45 tungumál. Það gefur augaleið að það er meiri áskorun en að hafa nemendur alla með sama menningarbakgrunn og sama tungumál. Þetta leiðir líka inn í aðrar opinberar stofnanir eins og löggæsluna og heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna og annað. Þetta gerir það að verkum að það tekur oft lengri tíma að vinna verkefnin og veita þá aðstoð sem þarf að veita íbúum svæðisins, það þarf að fara aðrar leiðir og afla frekari upplýsinga út frá mismunandi bakgrunni fólks. Verkefnið er stærra en samt sem áður jafn mikilvægt.

Við þurfum að geta brugðist við þessu. Í þessu samhengi vil ég líka benda á að þessi umsvif og þessi þróun á svæðinu er kannski fyrst og fremst út af þróun opinberra eigna. Þá vil ég fyrst nefna Isavia, Keflavíkurflugvöllinn sjálfan og reksturinn í kringum hann, sem er í opinberri eigu. Í kringum það svæði hefur vöxturinn verið hvað mestur. Landsvæðið sem flugvöllurinn er á, og sem Kadeco þróunarfélag hefur til umráða, er að mestu í eigu ríkisins og opinberri eigu. Þar hefur verið mikil markaðssetning, þróun og uppbygging sem er vel og mikilvægt, og við sem íbúar á Suðurnesjum eigum að fagna öllum þessum umsvifum, bæði uppbyggingunni á Keflavíkurflugvelli og í kringum Kadeco. Þeir sem standa að uppbyggingu af þessu tagi, eiga svona eignir og eru að auka verðmæti þeirra, þurfa náttúrlega að taka mið af því samfélagi sem þau eru að vaxa og þróast í. Ég vil bara benda á að það er ríkið sjálft sem hefur af því beina fjárhagslega og efnahagslega hagsmuni og ber samfélagslega ábyrgð á því að þessi uppbygging gangi vel fyrir sig. Því fagna ég því samkomulagi sem er komið í höfn, á milli sveitarfélaganna og fjármálaráðuneytisins, um framtíð Kadecos og hvernig svæðið verður búið til, svokallað uppbyggingarplan, og hvernig megi nota þessi tækifæri og markaðssetja svæðið, hvaða áherslu við viljum leggja á að nýta svæðið. Það er mjög mikilvægt að þarna sé gott samtal á milli sveitarfélaganna á svæðinu, sem sjá þá um að vera talsmenn samfélagsins sem uppbyggingin og þróunin á sér stað í, og svo eigandans, ríkisins sjálfs og stofnana þess. Það er mjög mikilvægt að það samtal sé tryggt, náið og mikið og að þessir aðilar hafi sameiginleg markmið um hvernig við viljum sjá svæðið og samfélagið þar byggjast upp og þróast þannig að við getum byggt upp öflugt og gott samfélag sem er efnahagslega mikilvægt fyrir Ísland allt og ríkissjóð. Það skiptir mjög miklu máli. Ef við nýtum öll þau gríðarlega miklu tækifæri sem Suðurnesin hafa yfir að búa getum við aukið velferð allra landsmanna gríðarlega, ef við höldum rétt á spilunum. Ég vona að bæði í samstarfinu í kringum Kadeco og í þeirri nefnd sem verður sett á fót í framhaldi af þessari þingsályktunartillögu sjái menn þessi tækifæri og sameinist um að ná þeim og byggja upp og sjái hvað þarf til að byggja þarna upp.

Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur svolítið verið bent á að það hafi verið erfitt fyrir Suðurnesin að takast á við það að vera þetta vaxtarsvæði, stofnanir og aðrir hafa ekki fengið sömu framlög og annars staðar. Þá vil ég bara benda á að Suðurnesin hafa oft orðið fyrir vissri öfund eða fordómum gagnvart því að vera svona nálægt flugvellinum; það hefur verið talið að fyrst Suðurnesin hafi flugvöllinn þurfi þau enga frekari athygli eða aðstoð. Það hefur komið svolítið niður á ferðaþjónustunni og uppbyggingu ferðamannastaða á svæðinu. Það er t.d. sagt að þar sem yfir 90% af ferðamönnum komi til landsins á þessu svæði — allir halda það — en það hefur eiginlega verið öfugt, það hefur verið erfiðara fyrir Suðurnesin. Þar sem Keflavíkurflugvöllur er oft markaðssettur sem Reykjavík og fleira kemur til hafa ferðamennirnir ekki stoppað mikið á Suðurnesjum en sveitarfélögin á Suðurnesjum og fyrirtækin hafa sýnt gríðarlegt frumkvæði í ferðaþjónustu og skipulagi ferðamannastaða með því að vera fyrst sveitarfélaga á landinu til að gera svokallaða áfangastaðagreiningu til að ákveða hvernig við ætlum að taka á móti ferðamönnum og tryggja upplifun þeirra og um leið vernd náttúrunnar. Það er frumkvæði sveitarfélaganna á svæðinu og fyrirtækja á svæðinu að fá UNESCO-vottun fyrir „geopark“ eða jarðvang. Því ber að fagna og ég vil bara benda á að íslensk stjórnvöld hafa ekkert komið að því verkefni. Þetta er algjörlega að frumkvæði sveitarfélaganna og er gríðarlega mikilvægt og mun skipta miklu máli upp á frekari uppbyggingu til framtíðar á atvinnustarfsemi þarna, að hafa þessa UNESCO-vottun á svæðinu. Svo hafa sveitarfélögin á Suðurnesjum líka gert svokallað svæðisskipulag. Í þessu svæðisskipulagi hafa sveitarfélögin sameinast um það hvar þau vilja leggja áherslu á sína uppbyggingu. Þau eru ekki hvert sveitarfélag fyrir sig að biðja um stórskipahöfn og fiskihöfn, þau eru bara búin að ákveða að ætla að hafa eina stórskipahöfn í Helguvík og svo tvær fiskihafnir, aðra í Sandgerði, hina í Grindavík. Um þetta hafa þau sameinast og fleira, svo sem hvar þau ætla að hafa mismunandi iðnaðarsvæði. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Mér finnst að stjórnvöld eigi að sýna þeim þakklæti fyrir það frumkvæði sem þau sýna í því að forgangsraða sínum verkefnum og sameinast um hagkvæma uppbyggingu innviða. Þess vegna er mikilvægt að þessir samgönguinnviðir verði byggðir upp núna, bæði Reykjanesbrautin og hafnarmannvirkin, að komið verði til móts við sveitarfélögin í umhverfismálunum, hvernig þau takast á við þetta, í stað þess að segja: Heyrðu, þið þurfið ekki aðstoð af því að þið eruð svo nálægt flugvellinum. Það bara á ekki við þarna, það þarf að takast á við þetta. Nálægðin við flugvöllinn kallar á enn meiri athygli og frekara samstarf stjórnvalda og samfélagsins á Suðurnesjum.

Lögreglan fær þarna miklar áskoranir og ég hef kynnst því sem fyrrverandi lögreglumaður á svæðinu hve alþjóðaflugvöllurinn tekur gríðarlega mikið af löggæslu til sín. Þess vegna ber að fagna því hve landamæragæslan hefur fengið miklar fjáraukningar, hátt í milljarð á síðustu árum. Það mun styrkja löggæsluna gríðarlega á Suðurnesjum og vonandi verða til þess að hægt verði að efla hina almennu löggæslu samhliða því. Það er gríðarlega mikilvægt að það gerist því að hin almenna löggæsla á Suðurnesjum hefur þurft að líða fyrir mikla aukningu umferðar á flugvellinum. Það er mikilvægt og ég vil ítreka það. Þess vegna er það líka alveg rétt, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði áðan, að svona mál eru ekki bara mál þingmanna Suðurnesja eða Suðurkjördæmis heldur eru þetta mál okkar allra, þingmanna þjóðarinnar. Ef vel tekst til við að byggja upp þessi atvinnutækifæri á Suðurnesjum, ef vel tekst að byggja þar upp gott samfélag og nýta þau tækifæri sem þar eru í sátt við samfélagið, mun það skila sér í betri velferð fyrir landsmenn alla. Nú er meira atvinnuleysi og ég vil koma inn á það áður en ég lýk máli mínu að fall WOW hefur haft áhrif um allt land og þá sérstaklega út af ferðaþjónustunni en það hefur umframáhrif á Suðurnesjum af því að það að þjónusta heilt flugfélag með heimahöfn kallar á miklu meiri þjónustu og störf en bein ferðaþjónustustörf gera. Þetta hefur líka mikil áhrif á útflutningsfyrirtæki sem starfa mörg á Suðurnesjum í sjávarútvegi og fiskeldi, vöruflutninga þeirra. Það er margt sem fylgir því að vera þjónustuaðili fyrir heilt flugfélag og störfin á flugvellinum sjálfum sem tengjast því voru gríðarlega mörg. Umfram þessi venjulegu ferðaþjónustustörf sem fall WOW hafði áhrif á hefur það áhrif á þessa hluti. Þarna er því stórt skarð fyrir skildi fyrir almenn fyrirtæki á Suðurnesjum sem voru að þjónusta flugfélagið og starfsfólk þeirra fyrirtækja og þar af leiðandi á samfélagið allt. Það ber að hafa í huga og það hefur bæst við frá því að þessi þingsályktunartillaga kom fram.

Framtíðin er björt á Suðurnesjum, ég hef fulla trú á því. En það eru margar áskoranir á leiðinni í að nýta þessa björtu framtíð, að hún megi verða. Við verðum að vera tilbúin að bregðast við þeim áskorunum og vera vel undirbúin. Þess vegna fagna ég þessu máli og vona að þingheimur sameinist um þetta mál og að við náum að láta góða hluti gerast í sameiningu.