149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:23]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni teljum að enn sé mörgum spurningum ósvarað í þessu máli sem æskilegt hefði verið að gefa lengri tíma til að skoða og svara áður en farið væri í að setja þessi lög. Sömuleiðis teljum við leitt að tækifærið hafi ekki verið nýtt til að auka tekjur þjóðarinnar fyrir afnot af sameiginlegri auðlind hennar með því að setja einn þriðja hluta makrílkvótans á uppboð. Þar var sömuleiðis ekki gripið það tækifæri að láta helming þeirra tekna sem yrðu til við uppboðið til sveitarfélaganna.

Við verðum því á rauðu í þessu máli.