149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[16:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum á móti þessu máli. Það hefur komið fram í nefndinni að mögulega standist ekki stjórnarskrá að fara þessa leið varðandi makrílkvótann, við gætum því áfram lent í þeirri stöðu að vera bótaskyld. Það er búið að dæma ríkið bótaskylt, hvað bæturnar séu miklar varðandi úthlutun á makrílkvóta, þ.e. hvað skattgreiðendur munu þurfa að borga útgerðunum. Nú þegar, 6. desember, hefur verið dæmt í Hæstarétti um slíka bótaskyldu. Eins og haldið hefur verið á þessum málum fáum við landsmenn samkvæmt þessari nálgun kvótanum úthlutað eftir veiðireynslu. Ekki er farin sú leið að 5% á ári færist hægt og rólega til þjóðarinnar og þjóðin fái markaðsvirði fyrir það, þ.e. raunverulegt verðmæti á auðlindinni, heldur er einnig verið að bíta höfuðið af skömminni með að við getum verið sett í þá stöðu, líka með þessu máli sem er samþykkt hér, að verða bótaskyld aftur, þannig að við fáum bæði að nýta okkar auðlind, ekki samkvæmt markaðsvirði heldur einhverju verði sem stjórnmálamenn ákveða, og svo að þurfa að borga þessum sömu aðilum sem nýta auðlindina úr ríkissjóði fyrir að hafa ekki fengið að nýta hana eins og þeir helst vildu. Þetta er það sem er verið að samþykkja hérna.