149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

veiting ríkisborgararéttar.

966. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess sem hv. þingmaður nefndi áður með verklagið held ég að enginn sé þeirrar skoðunar að verklagið í dag sé gott. Því er ábótavant, það er óumdeilt. Nákvæmlega á hvaða veg það kemur til með að breytast með tímanum þarf tíminn að leiða í ljós og sér í lagi allsherjar- og menntamálanefnd á næsta þingi en til umræðu hefur verið að nefndin leggi fram frumvarp sem muni þá skerpa á ýmsum reglum og breyta þeim. Það er umræða sem við tökum á næsta þingi. Það hefði verið óskandi ef það hefði tekist á þessu þingi en því miður tókst það ekki.

Ég tel þó einsýnt, vil ég segja, að ekki sé hægt að afnema það ferli sem hefur viðgengist í meginatriðum að Alþingi veiti ríkisborgararétt með þessum reglulega hætti. Það er einfaldlega ekki þannig að fólk geti komist fyrir svo mikið í boxi. Að mínu mati er það a.m.k. ekki tímabært á næstunni. En ég greiði atkvæði með málinu og (Forseti hringir.) vona að sem flestir aðrir geri það líka.