149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

957. mál
[16:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þetta er aðgerðaáætlun í 17 liðum og ég tel að með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu sé traustum stoðum skotið undir innlenda framleiðslu og lýðheilsa landsmanna tryggð vel. Aðgerðirnar eru mjög fjölbreyttar. Flestar þeirra verða tilbúnar þegar frumvarpið tekur gildi 1. janúar 2020 en aðrar eru viðvarandi verkefni, líkt og þær sem snúa að samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu. Því verkefni lýkur aldrei en samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar verður best tryggð með því að gæði hans séu meiri en innfluttra matvæla.

Ég vil nota tækifærið til að þakka sérstaklega sérfræðingi okkar við vinnslu á þessu máli, Kára Gautasyni, vísindamanni í búvísindum, fyrir alla þá aðstoð sem við höfum fengið við að gera þetta mál sem best úr garði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)