149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

957. mál
[16:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er góð tillaga. Þetta tengist því að innflutningur verður núna leyfður á búvörum sem hefði átt að gera fyrir löngu, en dómur EFTA-dómstólsins féll og í kjölfarið þurfti að leyfa þann innflutning neytendum til hagsbóta. Á móti kemur að fara þarf í mótvægisaðgerðir til að tryggja að sýklalyfjaónæmar bakteríur dreifist ekki í búfénað á Íslandi o.s.frv. Það er mjög gott.

Ég spurði alla í nefndinni: Eru þessar mótvægisaðgerðir bæði nauðsynlegar og nægilegar sem mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir þá áhættu sem er verið að tala um? Það kemur alveg skýrt fram hjá Matvælastofnun að fara þurfi í þær allar og það þarf að gera fyrir innleiðingu laganna. Nú verður innleiðingu þeirra frestað til 1. janúar. Út úr þessari þingsályktunartillögu um þær mótvægisaðgerðir sem er verið að fara í á að koma skýrsla til Alþingis 1. nóvember þannig að þetta er á góðum tíma. (Forseti hringir.) Þetta er vel gert og það var samstaða í nefndinni um þetta og samkvæmt okkar sérfræðingum eru þetta nægilegar aðgerðir við því að verið sé að flytja inn ófrosið kjöt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)