149. löggjafarþing — 125. fundur,  19. júní 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Við umfjöllun um þetta mál og raunar fleiri mál í allsherjar- og menntamálanefnd í vetur kom fram að margir þættir þeirrar löggjafar sem lýtur að lögræðislögum eða lögræði einstaklinga þyrftu endurskoðunar við. Allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði nokkuð ítarlega um þessa þætti en ljóst er að fara þarf yfir fleiri atriði í þessu. Tillagan sem hér liggur fyrir og er til atkvæða gerir ráð fyrir skipun þingmannanefndar sem muni hafa samráð við þau helstu stjórnvöld og hagsmunaaðila sem að þessum málum koma. Ég held að þó að þessi farvegur við undirbúning lagafrumvarps sé með vissum hætti nokkuð óvenjulegur geti þetta verið farsæl leið til að nálgast viðfangsefni sem ég held að við öll eigum að geta sameinast um. Ég styð þetta og tel að málið hafi verið leitt í mjög góðan farveg með afgreiðslu allsherjar- og menntamálanefndar.