149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Bergþórs Ólasonar er rétt að taka fram að frestun gildistökunnar er ekki háð neinum skilyrðum, þ.e. samkomulag var í tengslum við samkomulag um þinglok um að fresta gildistöku frumvarpsins til 1. janúar. Það var ekki háð neinum skilyrðum og það er ekkert ef í því. Það þýðir þá að það frumvarp sem hér er til afgreiðslu verður samþykkt á þessu vorþingi og það mun taka gildi 1. janúar enda, eins og menn þekkja úr forsögunni, nauðsynlegt vegna dóma sem hafa gengið og óþarfi að fara ítarlega út í þá forsögu alla.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Bergþór Ólason gerði grein fyrir, það er líka gert ráð fyrir að um verði að ræða reglubundna upplýsingagjöf af hálfu ráðuneytis til hagsmunaaðila og eftir atvikum annarra sem málið varðar, sem er auðvitað mjög mikilvægt og skiptir máli varðandi framfylgd þeirrar aðgerðaáætlunar sem við ræddum fyrr í dag að það gangi vel. Ábendingar hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði varðandi það hvernig gengur að hrinda þeirri aðgerðaáætlun í framkvæmd eru mikilvægar. Í raun og veru er sjálfsagt að ganga þannig frá að ráðherra og stofnanir hans geri með reglubundnum hætti grein fyrir þeirri stöðu mála því að það er auðvitað eins og menn þekkja í þinginu afar mikilvægt að áætluninni verði fylgt vel eftir.