149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég skal ekki tala lengi því að eins og forseti veit er ég allur af vilja gerður að liðka fyrir framgangi þingstarfa. Ég kemst þó ekki hjá því að segja nokkur orð um þetta stóra mál því að það er risastórt mál. Raunar hefði verið tilefni til að ræða það miklu meira í þinginu en tækifæri gefst til nú á lokasprettinum, kannski næstsíðasta degi þingstarfanna. Þetta er mál sem varðar grundvallarhagsmuni einnar undirstöðuatvinnugreinar landsins, greinar sem hefur verið undirstöðuatvinnugrein byggðar og raunar lífs í landinu frá upphafi. Þetta mál er því miður aðeins enn einn áfanginn af allt of mörgum sem hafa leitt til þess að vegið hefur verið að þessari undirstöðuatvinnugrein.

Nú má segja að íslenskur landbúnaður sé að takast á við ógnir úr mörgum áttum samtímis. Gerðar eru sífellt meiri kröfur varðandi aðbúnað og starfshætti í íslenskum landbúnaði og þeim fylgt eftir af mikilli festu, mætti jafnvel segja hörku. Á sama tíma hefur verið gerður tollasamningur við Evrópusambandið sem reyndist okkur Íslendingum einstaklega óhagfelldur. Um leið eru neysluhættir að breytast með þeim hætti að það gerir rekstur íslenskra búa og íslenskra matvælaframleiðenda erfiðari og svo bætist við þetta stóra högg sem felst í því frumvarpi sem hér er ætlast til að Alþingi leiði í lög.

Hvað líður athugasemdum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, sem voru mjög gagnlegar á ýmsan hátt eins og ég kem inn á aðeins á eftir, um gildistökuna og það að gildistakan sé ekki skilyrðum háð er það rétt, en ég vona að sem flestir muni nýta tímann til að leita leiða til að finna betri niðurstöðu, betri lausn á þessu máli sem gefur okkur þá kost á að bæta fyrir þau mistök sem Alþingi myndi gera með samþykki þessa máls, afturkalla málið og samþykkja nýtt og betra mál, hugsanlega með einhverjum hliðaraðgerðum sem væru nauðsynlegar til að gera okkur það kleift. Sú vinna verður vonandi unnin, ekki aðeins af íslenskum matvælaframleiðendum heldur einnig ríkisstjórninni, ráðuneytunum og stjórnarflokkunum.

Af því ég nefndi áðan að ræða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hefði verið gagnleg fannst mér hún gagnleg vegna þess að hún lýsti einlægri afstöðu. Ég geri ekki lítið úr því að hv. þingmaður, formaður Viðreisnar, hafi lýst einlægri afstöðu þess flokks og allt í ræðu hv. þingmanns var í samræmi við það sem ég hef heyrt frá þeim flokki. Það sem hefur hins vegar valdið mér verulegum áhyggjum í umræðu um málið er að mér hefur þótt ríkisstjórnarflokkarnir þrír allir, að því marki sem þingmenn þeirra hafa treyst sér til að tjá sig um málið, vera að færast yfir á Viðreisnarlínuna og það kann ekki góðri lukku að stýra þegar landbúnaðarmál eru annars vegar. Menn eru jafnvel farnir að nota hér Viðreisnarfrasana um að við verðum bara að gera þetta af því að við viljum vera svo góðir þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Við hljótum — þegar ég segi við á ég við okkur Miðflokksmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna, þingmenn þeirra — að vilja að það alþjóðlega samstarf sé með þeim hætti að við getum varið undirstöðuatvinnugreinar okkar Íslendinga, ekki hvað síst íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Af því að mikið er vísað til EES-samningsins í umræðu um málið má rifja upp að heilmikil umræða var um hvaða áhrif hann myndi hafa á annars vegar íslenskan sjávarútveg og hins vegar íslenskan landbúnað. En okkur Íslendingum var sagt að hafa engar áhyggjur vegna þess að þeir málaflokkar heyrðu ekki undir samninginn. Málsvarar Íslands í þeim málaferlum sem hafa verið nefnd í tengslum við þetta mál hafa bent á það, bæði á meðan á málaferlum stóð og eftir að þeim lauk, að málflutningur ESA og Evrópusambandsins í þessu máli hafi verið rangur. Stefán Már Stefánsson lögfræðingur lýsir niðurstöðu málsins sem rangri, ekki hvað síst vegna þess að þarna er Evrópusambandið og framlenging þess, ESA, að teygja sig umfram það valdsvið sem EES-samningurinn gerði ráð fyrir.

Þetta vekur spurningar um tvennt, annars vegar hvort íslensk stjórnvöld séu reiðubúin til að gera það sem þarf til að verja undirstöðuatvinnugreinar okkar og hins vegar hvort menn séu ekki reiðubúnir að gera neinar ráðstafanir til að bregðast við síaukinni ásælni Evrópusambandsins og stofnana sem tengjast því bandalagi gagnvart fullveldi þeirra þjóða sem þessar stofnanir hafa aðkomu að eða eitthvað um að segja. Þróunin er augljós. Menn færa sig sífellt upp á skaftið og þetta mál er eitt skýrasta dæmið um það. Ef við erum ekki tilbúin að bregðast við þegar um er að ræða þetta stórt hagsmunamál sem varðar ekki bara undirstöðuatvinnugrein heldur líka heilbrigði í landinu og erum ekki tilbúin að sýna neina mótspyrnu sem heitið getur gagnvart ásælni Evrópusambandsins í svona stóru máli hljótum við að þurfa að hafa áhyggjur af því sem er í vændum.

Það er ekki hægt annað, frú forseti, en að setja þetta í samhengi við annað stórt mál sem við höfum rætt hér á þinginu. Ég gerði það reyndar aðeins í síðari umr. en það er alveg tilefni til að rifja upp aftur hversu kaldhæðnislegt það er að á sama tíma og okkur þingmönnum er sagt að okkur sé alveg óhætt að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess að það séu til staðar einhverjir fyrirvarar eða fyrirvari. Leitin að þeim stendur enn þá yfir en okkur hefur verið sagt að þeir séu til, að til séu fyrirvarar sem gera okkur kleift að samþykkja það mál. Á sama tíma birtist ríkisstjórnin með þetta mál og viðurkennir að hún hafi haldið að við hefðum fyrirvara, raunverulegan lagalegan fyrirvara sem myndi halda en henni sé sagt að sú sé ekki raunin og þá verði hún bara að láta undan.

Hvað segir það okkur til að mynda um hvers kunni að vera að vænta varðandi orkupakkann ef þetta er viðhorfið þar sem þó voru raunverulegir lagalegir fyrirvarar, þar sem þó er um að ræða mál sem væru utan valdsviðs EES-samningsins? Á einhver að trúa því að ímyndaðir fyrirvarar, hugsanlega í greinargerð, hugsanlega í nefndaráliti, muni hafa eitthvað um það að segja hvernig orkupakkinn verður innleiddur til framtíðar?

Ég vil líka nefna annað atriði sem ég kom stuttlega inn á í 2. umr. um þetta mál og það er mikilvægi þessarar atvinnugreinar, landbúnaðar, fyrir aðrar atvinnugreinar og byggð í landinu. Ekki er hægt að líta á þetta sem einangrað tilfelli, eins og mönnum hættir stundum til og segja að það starfi einungis svo og svo margir við landbúnað, vegna þess að landbúnaður er undirstaða atvinnulífs og byggðar víða um land. Ef landbúnaðar nyti ekki enn við í þeim landshlutum þar sem landbúnaður er þó enn til staðar væri byggðin ekki bara fátæklegri, hún væri ekki til staðar á mörgum stöðum. Það er ekki bara spurning um þessa tilteknu atvinnugrein og það hversu mikilvægt það vissulega er að standa með þeirri grein, heldur er þetta spurning um byggðirnar hringinn í kringum landið.

Svo aðeins að neytendamálum, frú forseti. Það er með stökustu ólíkindum þegar menn leyfa sér annaðhvort beint eða óbeint að stilla íslenskri matvælaframleiðslu, íslenskum bændum, upp sem einhvers konar andstæðingum neytenda. Stuðningur ríkisins við íslenska matvælaframleiðslu, við íslenskan landbúnað, er neytendastuðningur. Hann er í raun líka á vissan hátt framlag til heilbrigðismála, framlag til efnahagsmála til að viðhalda hér og styrkja sjálfstætt og sterkt efnahagskerfi. Það að leyfa sér að slíta hlutina svona í sundur og reyna að etja einni stétt fólks á móti öðrum er afskaplega óheppileg pólitík, ég myndi kalla það popúlisma. Því miður er popúlismi af þessum toga allt of áberandi nú til dags og á greiða leið í tiltekna fjölmiðla og umræðu. Við sem metum mikilvægi landbúnaðar og fjölbreytts atvinnulífs á Íslandi verðum að reyna að spyrna við fótum gagnvart þessum vaxandi popúlisma.

Að lokum, frú forseti, finnst mér tilefni til, af því að mikið er vísað til alþjóðasamstarfs í umræðu um þetta mál, að benda á þá staðreynd sem ég hefði talið augljósa, að ekki eru mörg lönd, ekki mörg þróuð ríki, sem sjá ekki ástæðu til að verja sína eigin matvælaframleiðslu með þeim tækjum sem kostur er á að nýta. Auðvitað snýst þetta allt um Evrópusambandið, frú forseti. Getum við ekki verið sammála um það? Evrópusambandið er tollabandalag sem reisir um sig tollamúra. Ísland er með mun frjálslegri viðskiptastefnu við önnur lönd en Evrópusambandið. Það eru fá ef nokkur lönd sem hafa gert fríverslunarsamninga við eins mörg lönd. Þvingandi tollar og gjöld eru hér almennt lægri en í Evrópusambandinu. Telja menn að Evrópusambandið beiti ekki vörnum fyrir sinn innri landbúnað, sína matvælaframleiðslu, þekkja menn hversu mikið evrópskir skattgreiðendur setja í að viðhalda landbúnaði þar, með reyndar alveg einstaklega óhagkvæmum aðferðum þar sem mönnum er jafnan greitt fyrir að framleiða ekki? Þær greiðslur renna yfirleitt ekki til fjölskyldubúa heldur til stórfyrirtækja, ekki bara verksmiðjubúa heldur stórfyrirtækjanna sem eiga þau. Þessi fyrirtæki fá greiðslur, ekki hvað síst fyrir að framleiða ekki verðmæti. Viljum við færast yfir í það fyrirkomulag? Viljum við vera opin fyrir því að hingað, á viðkvæma íslenska markaðinn, verði sturtað umframframleiðslu úr niðurgreiddum verksmiðjubúum Evrópu? Það getur ekki verið ásættanlegt fyrir okkur. Ef við erum sammála um það, sem ég vona að við getum verið, hljótum við að draga línu í sandinn og við þær aðstæður sem ég lýsti hér áðan, þar sem sótt er að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum samtímis, getum við ekki látið það viðgangast að mál eins og þetta renni hér í gegn með engu nema einhverjum almennum svokölluðum mótvægisaðgerðum sem við vitum ekki hverju muni skila. Við hljótum að nýta tímann sem gefst núna fram að áramótum til að meta hvort ekki kunni að vera leiðir, — ég tel að þær séu til, við munum auðvitað skoða þetta töluvert — til að sleppa úr þessu klandri. Þá gefst ríkisstjórninni — ég vona að ríkisstjórnin hafi einfaldlega frumkvæði að því sjálf — tækifæri til að koma með nýtt frumvarp á þing í haust sem afturkallar þau lög sem menn vilja að taki gildi samkvæmt frumvarpinu. Fái þau samþykki, sem ég óttast að verði raunin, gefst ríkisstjórninni tækifæri til að afturkalla þau lög og innleiða lausnir sem eru til þess fallnar að skila því markmiði að verja íslenskan landbúnað, íslenska matvælaframleiðslu, íslenskt efnahagslíf, matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar og þar með íslenskt samfélag.