149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:52]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir áhuga hans á þessu máli. Ég hefði viljað sjá áhuga Miðflokksmanna á þessu máli fyrr, ég varð lítið var við hann í undirbúningi málsins og ég held að fleiri hv. þingmenn sem komu að vinnu við málið séu mér sammála hvað það varðar. En betra er seint en aldrei og hv. þingmaður kom inn á margt áhugavert.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að eyða tíma mínum í að ræða mikið um Miðflokkinn heldur velta fyrir mér hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér með því frumvarpi og þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir. Hvernig ég sjái framtíðina fyrir mér sem matvælaframleiðandi að lokinni gildistöku þessara laga og þegar virkni breytingartillögunnar verður komin.

Þetta hangir allt saman, frumvarpið og breytingartillagan. Þeir sem hafa horft á þá aðgerðaáætlun sem við ræddum áðan og greiddum atkvæði um vita að hér eru gríðarlega mörg og góð verkfæri sem í mínum huga gera ekkert annað en að styðja við íslenska framleiðslu og gera hana enn samkeppnishæfari en hún er í dag gagnvart þeim innflutningi sem von er á.

Af hverju segi ég það? Þegar maður ætlar að gera kröfur til einhverra annarra á maður alltaf að byrja á að gera mestar kröfur til sjálfs sín. Í þessu tilliti erum við að gera það varðandi íslenska matvælaframleiðslu. Ég ítreka líka að við erum ekki bara að tala um kjöt, við erum að tala um öll matvæli sem eru framleidd á landinu, þar með talið grænmeti. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenska grænmetisframleiðendur til að blása til sóknar því að hingað til lands er flutt inn gríðarlegt magn af grænmeti. Tekin hafa verið sýni, svona slembiúrtak, úr þeim vörum sem hingað eru fluttar inn og það hefur fundist alls kyns óværa í þeim innflutningi. Með því frumvarpi sem við erum að ræða ætlum við að banna dreifingu á vörum sem innihalda tilteknar fjölónæmar bakteríur. Það er stórt skref en það er heldur ekki þar með sagt að við þurfum ekki öll — eins og staðan er í dag á Íslandi — að taka okkur verulega á líka. Það hefur verið í fréttum undanfarið að hér hafa fundist alls konar bakteríur, minni háttar bakteríur í vörum sem við erum að framleiða. En það er bara áskorun fyrir íslenska matvælaframleiðendur að takast á við það. Ég hef fulla trú á því að það sé hægt.

Það er töluverður misskilningur í gangi þegar við erum að ræða þetta. Menn tala í öðru orðinu um að hingað verði bara sturtað inn alls konar verksmiðjukjöti sem ekki sé af þeim gæðum sem við setjum okkur að hafa. En ég get ekki betur skilið þetta frumvarp og þá breytingartillögu sem við erum að ræða öðruvísi en svo að komið sé í veg fyrir það. Það verður ekki hægt að flytja hingað inn bara eitthvað. Við gerum kröfur til þeirra matvæla sem hingað koma.

Virðulegur forseti. Þetta á víst að vera næstsíðasti dagur okkur á þingi. Væntanlega vilja fleiri taka til máls í þessari umræðu og ég ætla ekkert að orðlengja þetta miklu lengur en vil bara ítreka að íslenskir bændur óttast ekki samkeppni erlendis frá, þ.e. ef samkeppnin er á jafnréttisgrunni, það er lykilatriði. Allt tal um annað er bara rangt. Vissulega komu umsagnir á fyrstu stigum þessa máls sem voru frekar neikvæðar frá kollegum mínum og skil ég það vel en menn verða líka að hafa í huga að frumvarpið hefur tekið gríðarlegum breytingum í vinnslu atvinnuveganefndar, breytingum til hins betra.