149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:58]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt annað þegar forystumaður bænda tekur til máls með sína þekkingu, reynslu og yfirsýn — verandi í Framsóknarflokknum með alla sína sögu — en að hlusta. Það er fengur fyrir okkur þegar við ræðum um jafn mikilvæg mál og það sem hér um ræðir, hið svonefnda ferska kjöt, að heyra hvað hv. þingmaður hefur fram að færa.

Ég viðurkenni alveg eins og ég gat um áðan, verandi í atvinnuveganefnd, að ég var mjög tortryggin fyrst. Ég hélt að það væri verið að fara ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir að við færum í raun eftir því sem bæði Hæstiréttur og samningurinn um EES hafa fram að færa í þessu máli. En ég er sannfærð um það, líkt og hv. þingmaður, að við höfum verið að stíga skynsamleg skref. Eðlilega höfum við farið yfir þá þætti sem hafa vakið okkur til umhugsunar. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að margir höfðu miklar efasemdir. Vinna þingsins gengur að mínu mati einmitt út á að fara málefnalega yfir hlutina og reyna að koma í veg fyrir að rangfærslur séu á yfirborðinu, eða hræðsluáróður, miklu frekar að við segjum: Við erum að taka rétt og skynsamlega á málum.

Það skiptir mig mestu máli að við erum með þessu að styðja íslenska landbúnaðarframleiðslu. Við erum að undirstrika að hún er og verður áfram undirstaða byggðar hér á landi. Hún styður ekki bara byggðina heldur líka aðrar atvinnugreinar, ferðaþjónustuna, og ég er sannfærð um að landbúnaðurinn verður eitt helsta hryggjarstykkið í sjálfri ferðaþjónustunni til skemmri og lengri tíma. Það verður að vera mikil samvinna þarna á milli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Hvernig sér hv. þingmaður þróast samvinnu landbúnaðarins og ferðaþjónustunnar? Og er ekki alveg ljóst að með þessari aðgerðaáætlun sem við samþykktum fyrr í dag (Forseti hringir.) erum við að styðja íslenska landbúnaðarframleiðslu þannig að þar verði ýmis sóknarfæri fram undan ef rétt er á málum haldið?