149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:00]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurningar frá hv. þm. Þorgerði Katrínu. Þeim er kannski ekki auðsvarað á tveimur mínútum en ég skal leggja mig fram. Í samspili landbúnaðar og ferðaþjónustu eru vissulega gríðarleg tækifæri og þá getum við horft til þess sem menn eru sífellt að þróa, þ.e. Beint frá býli.

Síðan hvað varðar massatúrisma og stærri túrisma er það svo, og það þekki ég ágætlega sem fyrrverandi formaður sauðfjárbænda og það þekkir einnig hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem fyrrverandi ráðherra landbúnaðarmála, að farið var í verkefni tengt sauðfjársamningi þar sem var unnið með markaðssetningu sem eingöngu beindist að erlendum ferðamönnum. Þar á ég við verkefni sauðfjárbænda á veitingastöðum vítt og breitt um landið. Það verkefni skilaði okkur því að nú getum við, íslenskir neytendur, fengið okkur lambasteik á bestu veitingastöðum bæjarins. Því miður var það áður heilt yfir bara ekki hægt þannig að samspil allra þessara þátta hefur áhrif.

Vissulega er sú umgjörð sem við erum að skapa hérna í dag stuðningur við íslenskan landbúnað beint og óbeint. En við erum líka að gera kröfur til íslensks landbúnaðar. Við eigum alltaf að hafa það í huga að hér erum við líka að gera mestar kröfur til okkar bænda og okkar framleiðslu vegna þess að við ætlum að vera fremstir.