149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:05]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar. Þetta var svo sem kannski ekki bein spurning til mín en ég ætla aðeins að koma inn á samkeppni erlendis frá. Við þurfum að hafa í huga að við erum búin að vera í samkeppni erlendis frá í mörg ár. Þetta er ekki neitt nýtt sem er að gerast. Við ætlum bara að spila eftir öðrum leikreglum en við höfum gert hingað til. Það kemur ekki bændaforystunni neitt sérstaklega á óvart að það sé innflutningur líka. Það er gríðarlegur innflutningur nú þegar á hinum og þessum landbúnaðarvörum. En með því sem við erum að ræða núna, þessu frumvarpi og breytingartillögum, gerum við kröfur til vörunnar sem er flutt til landsins. Við erum ekki að gera neinar kröfur til þeirrar erlendu vöru sem er flutt til okkar í dag. Eftirlitið er lítið, merkingum er ábótavant o.s.frv. en með þessu erum við að stíga stórt skref til að vernda heilbrigði búfjárstofna, lýðheilsu Íslendinga og matvælaöryggi. Þetta eru lykilatriðin. Ég óttast þetta ekki. Framtíð íslensks landbúnaðar og matvælaframleiðslu er björt og ég hef fulla trú á því að þegar þetta verður allt komið til framkvæmdar verði bara sókn í íslenskum landbúnaði.