149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en komið aðeins hingað upp og rætt þetta mál vegna þess að það hefur verið rætt óbeint í samhengi við annað mál eins og hv. 3. þm. Norðaust. fór hér yfir áðan, þ.e. þriðja orkupakkann, sérstaklega fyrirvarana sem þar eru nefndir. Nú vona ég að hv. þingmenn sýni mér smáþolinmæði vegna þess að um er að ræða óskylt mál. Vandinn er sá að búið er að hringla þessum málum saman í umræðunni og mér finnst mjög mikilvægt, ekki bara vegna þriðja orkupakkans heldur líka vegna þessa máls, að sú flækja sé leyst. Það er í einu orði rangt að þarna sé um sama málið að ræða eða að það snúist um sömu atriðin og menn hafa að athuga við þriðja orkupakkann.

Í þriðja orkupakkanum er talað um fyrirvara og ég ætla að reyna að komast hjá því að fjalla um þá sérstaklega en þegar andstæðingar þriðja orkupakkans hafa talað á Alþingi vísa þeir í þetta mál, í frosnakjötsmálið eins og það er kallað, til að sýna fram á að það sé ekkert að marka neina fyrirvara, að fyrirvarar séu bara eitthvert bull út í buskann sem hafi enga þýðingu.

Í fyrsta lagi undirstrikar þetta misskilning hv. þingmanna á orkupakkanum sjálfum og eðli þeirra fyrirvara sem þar eru settir. Í öðru lagi eru þeir fyrirvarar sem þar eru settir á allan hátt frábrugðnir þeim sem varða þetta mál. Fyrirvararnir sem settir eru í þriðja orkupakkanum eru sagðir, af andstæðingum sem hér tala, vera þannig að EES eða ESB muni bara hunsa þá og muni ekkert láta þá sig varða, og misskilja auðvitað að það sé EES eða ESB að meta það þegar svo er ekki. Það er íslenskra dómstóla að meta það og varða þeir fyrirvarar stjórnarskrárlegt samhæfi ákveðinna greina sem fylgja ákveðnum gerðum þriðja orkupakkans.

Þær reglur sem voru settar til að hindra innflutning á frosnu kjöti voru ekki dæmdar ólögmætar vegna þess að EES eða ESB hafi hunsað fyrirvara af hálfu Íslands. Það er bara ekki þannig. Þær tímabundnu undanþágur sem Ísland fékk voru endurskoðaðar og fjarlægðar. Með öðrum orðum, Ísland skuldbatt sig til þess að fara eftir þeim ákvæðum sem gera það að verkum að hindranir á innflutningi frosins kjöts voru ekki lengur heimilar. Ísland samþykkti það, ríkisstjórnin samþykkti það, Alþingi samþykkti það. Það var ekki þannig að Alþingi ákveddi eitthvað annað og einhverjir vondir útlendingar sneru okkur einhvern veginn niður. Nei, samningaviðræður fóru í gang og eins og í öllum samningaviðræðum eru kostir og gallar, báðir þurfa að fórna einhverju og fá eitthvað í staðinn og í tilfelli Íslands var það metið þannig að það þjónaði hagsmunum Íslands að geta flutt út fisk til Evrópusambandsins á sömu forsendum, þ.e. þannig að aðrar þjóðir séu ekki með ómálefnalegum hætti að hindra aðgang okkar að þeirra markaði. Þannig virka samningar, virðulegi forseti. Þannig virkar EES og þess vegna er EES-samstarfið gott vegna þess að það fjarlægir ómálefnalegar hindranir á mörkuðum, tryggir aðgang annarra að okkar markaði alveg eins og okkar aðgang að þeirra markaði. Það er sanngjarnt, það er heilbrigt, þannig virka viðskipti. Mér finnst svo skrýtið hvernig það er einhvern veginn komið í tísku aftur, sér í lagi af hálfu hv. þingmanna Miðflokksins, að vera á móti frjálsum viðskiptum að því er virðist. Hvenær varð það allt í einu svona slæmt að vera í viðskiptum með vörur á milli landa? Hvenær varð það eitthvert tabú og eitthvað neikvætt eins og það sé eitthvert sjálfstæðisatriði fyrir Ísland að hingað sé ekki eitthvað flutt inn eða eitthvað flutt út? Auðvitað viljum við flytja inn og flytja út og það þýðir væntanlega að við viljum gera það á grundvelli einhverra sanngjarnra reglna sem allir viðskiptaaðilar geta sætt sig við og skilja á sameiginlegan hátt.

Um það snýst EES. Um það snýst líka þriðji orkupakkinn og um það snýst líka þetta mál. Mér finnst svolítið eins og hv. þingmenn Miðflokksins annaðhvort leggi sig ekkert fram við að hugsa eða hlusta á þessi mál eða hunsi vísvitandi þessi lykilatriði málsins. Ég veit ekki hvort er og það er ekki mitt að meta svo sem.

Annað sem ég vil líka nefna er að þessu er oft stillt upp þannig að það sé einhvern veginn Ísland á móti EES eins og íslenskir hagsmunir séu allir sameinaðir í orðræðu Miðflokksins eða annarra sem tala hvað hæst á móti þriðja orkupakkanum og sambærilegum málum. Það er ekkert þannig. Það voru íslenskir aðilar sem kvörtuðu til EES í þá daga vegna meintra samningsbrota. Það voru íslenskir aðilar og íslenskir hagsmunir sem kvörtuðu til EES og EES svaraði með að verja hagsmuni þeirra, hagsmuni þeirra Íslendinga í þeim íslensku stofnunum sem vildu fá að flytja inn frosið kjöt.

Sömuleiðis var það íslenskur aðili sem síðar meir vildi flytja inn frosið kjöt þegar það mál fór til Hæstaréttarins og Hæstiréttur dæmdi þeim Íslendingi í vil gegn íslenska ríkinu, þökk sé EES.

Hvað varðar það hvort hindra beri innflutning á frosnu kjöti býður EES-samningurinn algjörlega upp á að settar séu hömlur þegar málefnalegar ástæður eru fyrir hendi, svo sem í 13. gr. EES-samningsins sjálfs sem ég verð eiginlega að lesa hérna, virðulegi forseti, með leyfi:

„Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“

Og það er heili punkturinn, að forðast gerræðislega mismunun eða duldar hömlur. Ef það kemur í ljós að einhverjar hömlur sem kannski er talað um að séu málefnalegar, svo sem að innflutningur á frosnu kjöti sé einhvern veginn hættulegur fyrir heilsu dýra og manna, þarf að leggja mat á hvort það mat sé rétt. Enn fremur þarf að leggja mat á það hvort ekki sé hægt að ná sama markmiði til að verja heilsu dýra og manna eftir öðrum leiðum. Niðurstaðan varð sú að það væri hægt og þess vegna væru þetta duldar hömlur og þar af leiðandi á skjön við EES-samninginn. Með öðrum orðum, við höfðum ekki nógu góðar ástæður til að beita þessum tilteknu hömlum. Þetta var ákveðið af Hæstarétti Íslands og EFTA af sömu ástæðu og við myndum vilja að dómstólar og EFTA kæmust að sömu niðurstöðu ef við værum látin lúta sambærilegum viðskiptahömlum við útflutning okkar á fiski sem dæmi, eða orku ef út í það er farið.

Ég vildi bara halda þessu til haga, virðulegi forseti. Frjáls viðskipti eru í eðli sínu góð. Þau eru ekki lausn á vandamálum alls heimsins. Þau eru ekki góð sama hvað en þau eru í meginatriðum í eðli sínu góð. Það er ekki ógn við sjálfstæði Íslands að hér sé hægt að flytja inn hluti og flytja þá út. Það er ekki heldur ógn við sjálfstæði Íslands að það séu sameiginlegar reglur á milli þeirra þjóðríkja sem taka þátt í viðskiptunum sem gilda um téða vöruflutninga og téð frelsi.

Það var einungis í ljósi ræðu hv. 3. þm. Norðaust. hér áðan sem mér fannst mér skylt að koma hingað upp og nefna þetta aðeins. Ég kynnti mér þetta mál fyrst og fremst vegna umræðunnar um þriðja orkupakkann þar sem ég taldi að ég hefði rekist á rangt mál vegna þess að það var svo algjörlega ósamhæft við orðræðuna frá hv. þingmanni um þriðja orkupakkann, algjörlega ósamhæft. Mér fannst ég hljóta að vera að lesa rangt mál en auðvitað var það rétta málið. Það voru bara hv. þingmenn Miðflokksins sem enn og aftur voru úti að aka í umræðunni.