149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég sé að forseti úthlutar mér aðeins fimm mínútum. Það verður þá að duga þó að það mætti nota meiri tíma í að bregðast við þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér á undan, nú síðast ræðu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sem einkenndist fannst mér svolítið af því yfirlæti sem Píratar eiga til að sýna í ræðustól en við erum svo sem orðin vön því.

Það sem ég vildi þó fyrst og fremst leggja áherslu á í þessari seinni ræðu minni við 3. umr. er að við megum ekki vera smeyk við það, eins og mér heyrist á sumum fyrri ræðumönnum í umræðunni, að verja íslenska hagsmuni og að menn rjúki þá hér upp og stilli málum upp þannig að með því sé verið að tala um að útlendingar séu vondir og einhver önnur eins della. Allar þjóðir meira og minna, held ég að megi segja, líklega allar, verja hagsmuni sína og í viðskiptum gera menn það, til að mynda í viðskiptum á grundvelli EES-samningsins verða menn að verja hagsmuni sína. Það er ekkert nema eðlilegt við það. Það að láta að því liggja að þegar við Íslendingar leyfum okkur að verja hagsmuni feli það í sér einhverja andúð á útlendingum, það er auðvitað algjörlega óboðleg umræða. Ef þetta yrði stefnan, ef þetta yrði ríkjandi viðhorf, sem maður óttast að geti orðið, verður litlum vörnum við komið vegna þess að aðrar þjóðir munu áfram verja sína hagsmuni og eru ósmeykar við það.

Í tilviki Evrópusambandsins, eins og ég ræddi áðan, er það tollabandalag sem leggur tolla og gjöld á vörur langt umfram það sem Íslendingar gera. Það tel ég ekki vera runnið undan rifjum einhverra sem hafi óbeit á öðrum Evrópubúum, enda er ég ekki hallur undir popúlisma eins og þann sem við höfum hlýtt á í ræðunum á undan. Það er eðlilegt að þjóðir verja hagsmuni sína og þess vegna þurfum við Íslendingar að gera það líka. Íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir því að vera í vörn, að honum er sótt úr ólíkum áttum, hvort sem það er vegna breyttra aðstæðna eða til að mynda vegna tollasamningsins sem ég nefndi áðan. Ég veit ekki hvort það var viljandi gert eða hvort hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé þekkti málið einfaldlega ekki, það hefur samt verið talsverð umræða um það í fjölmiðlum, að sá tollasamningur var ekki afgreiddur í ríkisstjórn á sínum tíma áður en hann var samþykktur. (Gripið fram í.) Hann var samþykktur af þáverandi landbúnaðarráðherra sem tilkynnti um málið í kvöldfréttum og þar heyrðu aðrir ráðherrar fyrst af þeim samningi, samningi sem hefur reynst okkur einstaklega óhagfelldur, enda er gert ráð fyrir að skipta þar á kílói á móti kílói, annars vegar 300.000 manna þjóðin og hins vegar 500 milljóna manna markaðurinn. Þar af leiðandi er eðlilegt að endurskoða þann samning.

Þó að ég eigi ekki nema innan við tvær mínútur eftir verð ég líka að nefna það sem kom fram áðan í umræðunni sem er svolítið í ætt við fullyrðingar um að þeir sem vilja verja íslenska hagsmuni séu á móti útlendingum, sem er þráhyggja sumra þingmanna varðandi EES-samninginn og að varla megi tala um hugsanlega galla á því samstarfi þó að það sé með það að markmiði að bæta samstarfið. Þannig var það nefnt í ræðu áðan sem sérstakt fagnaðarefni að íslenskir aðilar hefðu beitt þeim samningi til að krefjast bóta frá ríkinu, bóta sem námu meira en 3 milljörðum kr. Þetta voru ekki hvað síst íslenskir heildsalar. Hvernig var þessi upphæð fundin? Það skyldi þó ekki vera að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri sú upphæð sem þeir aðilar hefðu haft tækifæri til að ná, hagnaður sem þeir hefðu orðið af vegna þess að ekki hafi verið búið að innleiða það frumvarp sem við ræðum núna? Hvaðan hefði sá ávinningur komið? Frá íslenskum bændum, frá íslenskum matvælaframleiðendum. Við skulum forðast popúlískar upphrópanir, eins og við höfum heyrt frá fyrri ræðumönnum, og leyfa okkur að tala um mikilvægi þess að verja íslenska hagsmuni. Það gera aðrar þjóðir svo sannarlega og gera ráð fyrir að Íslendingar hljóti að gera slíkt hið sama fyrir sínar atvinnugreinar.