149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að gera það ljóst hvers vegna fólk fær það á tilfinninguna að hv. þingmaður og flokkur hans líti svo á að þetta sé alltaf Ísland á móti einhverjum útlendingum. Ástæðan er einföld. Hv. þingmaður talar þannig. Hann setur samasemmerki á milli þess að nálgast málin frá sinni hlið og þess að verja íslenska hagsmuni.

Ég stóð hér í pontu og var að tala fyrir íslenskum hagsmunum en vegna þess að hv. þingmaður lítur ekki þannig á er hann svo fljótur að setja í sinn eigin vasa íslenska hagsmuni, eins og Ísland sé einhvern veginn hluti af hans sýn á EES-samstarfið og hans sýn á það hvernig alþjóðaviðskipti eiga að virka þegar það er einfaldlega ekki tilfellið. Hv. þingmaður viðurkennir á sama tíma og veit að það voru íslenskir aðilar og Íslendingar hverra réttindi voru brotin og varin af Hæstarétti og EFTA, en hann lætur eins og það séu íslenskir hagsmunir sem ekki séu varðir. Það er þessi tilhneiging til að setja alltaf hlutina upp góði kallinn andspænis vonda kallinum. Góði kallinn er auðvitað alltaf ég eða við, alltaf 1. persóna. Vondi kallinn er alltaf 2. persóna í eintölu eða fleirtölu. Þetta er ofureinföldun og ég veit að hv. þingmaður myndi aldrei taka undir slíka heimssýn. Hv. þingmaður talar samt þannig þegar hann lætur alltaf eins og hans nálgun sé íslensku hagsmunirnir en það að tryggja frjáls viðskipti milli landa, með þeim kostum og göllum sem samningum fylgja, sé einhvern veginn öndvert íslenskum hagsmunum.

Þetta er ástæðan fyrir því að fólk fær á tilfinninguna að hv. þingmaður og hans flokkur láti alltaf eins og útlendingar séu að reyna að grípa Ísland og taka það yfir eða ganga á hagsmuni Íslands þegar það er ekki tilfellið, eins og að við hér sem höfum talað líka séum ekki að verja hagsmuni Íslands. Þetta hljómar eins og útlendingafóbía. Þetta hljómar þannig. Hv. þingmaður mun koma hingað upp og segja að svo sé ekki. Gott og vel, en það hljómar þannig. Ég vona að hv. þingmaður skilji það.