149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst hv. þingmaður bara undirstrika punkt minn. Það er engin feimni við það hér að segja að við eigum að verja hagsmuni Íslands. Það hefur enginn komið og mótmælt því. Það hefur enginn einu sinni mótmælt því að við segjum hátt og snjallt að við séum hingað komin til að þjóna og verja hagsmuni Íslands. Við erum öll komin til að gera það. Það er óumdeilt, það þarf ekki að taka debatt um það. Það er ljóst. En þegar hv. þingmaður setur sína afstöðu upp sem hagsmuni Íslands og aðra afstöðu sem eitthvað annað en hagsmuni Íslands þá hljómar það eins og hv. þingmaður líti svo á að hagsmunagæsla Íslands felist í ævarandi togstreitu milli þess að við fáum það sem við viljum og að aðrir fái það sem þeir vilja og að ekki sé hægt að vera í samstarfi við aðrar þjóðir, með þeim kostum og göllum sem fylgja öllum samningum, án þess að það sé einhvers konar yfirgangur af hálfu útlendinganna, ESB og EES á ég við, gagnvart Íslandi. Það er hvernig hv. þingmaður setur málið upp sem lætur það hljóma svona.

Ég skal verja hagsmuni Íslands og segi það hér hátt og snjallt og ég skal segja við hv. þingmann: Það hefur aldrei nokkurn tímann neinn vænt mig um að vera hræddur við útlendinga, aldrei nokkurn tíma. Ég á ekki við það vandamál að stríða. Af hverju ekki? Vegna þess að ég set hagsmuni Íslands ekki upp sem öndverða hagsmunum útlendinga eins og hv. þingmaður gerir hér ítrekað. Það eru hagsmunir Íslendinga að fá að flytja inn frosið kjöt. Það eru ekkert sjálfkrafa hagsmunir Íslendinga að mega það ekki.

Ég er að vona að þetta verði skýrt. Íslendingar eru ekki einhver sameinaður kjarni sem hafa allir nákvæmlega sömu hagsmuni og ekki útlendingar heldur. Ég get bara endurtekið mig og ætla að sleppa því, virðulegi forseti, og spara tímann, ég vona að þetta fari einhvern tímann að vera skýrt.

Hv. þingmaður, ég verð bara að segja: Ég á ekki við þau vandamál að stríða að það sé alltaf verið að misskilja mig eins og ég sé einhvern veginn rosalega hræddur við útlendinga. Ég hef aldrei átt við vandamál að stríða. Ég velti fyrir mér, virðulegur forseti, með hliðsjón af því að hér kem ég til að verja hagsmuni Íslands, hátt og snjallt: Hvers vegna ekki?