149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Við 2. umr. um frumvarpið lagði 1. minni hluti nefndarinnar fram breytingartillögu við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands á þskj. 1829 og er hún núna á þskj. 1885. Það er rétt að vekja athygli á því.

Í breytingartillögunni felst í fyrsta lagi að kröfur til hæfni fulltrúa í bankaráði Seðlabankans verði auknar, í öðru lagi að verkefni bankaráðs verði nánar skilgreind, í þriðja lagi að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði að jafnaði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra, í fjórða lagi að fjallað skuli um árangur markmiða í ársskýrslu Seðlabankans, í fimmta lagi að fram skuli fara ytra mat á starfsemi Seðlabankans á fimm ára fresti og í sjötta lagi að innan tveggja ára frá gildistöku þessara laga — ég hygg að það sé raunar fyrir árslok 2021 — skuli vinna skýrslu um reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans með nánar tilgreindum hætti.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til nefndarálitsins þar sem fjallað er um einstakar breytingartillögur en það er skemmst frá því að segja að breytingartillaga 1. minni hluta kom ekki til atkvæða við 2. umr. og hefur nú verið lögð fram að nýju.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar styður allar breytingartillögur sem 1. minni hluti hefur lagt fram og mælir með samþykkt þeirra allra. Það skal líka tekið fram að nefndarmenn ríkisstjórnarflokkanna leggja til að frumvörpin bæði verði samþykkt svo breytt.

Undir þetta nefndarálit rita sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, og hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.