149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

765. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Eftir þessa breytingu verður stofnunin stór og mjög valdamikill, eins og ég nefndi í ræðu minni. Hver á að hafa eftirlit með eftirlitinu? er sígild spurning og á ekki bara við um Seðlabankann. Seðlabankinn verður sjálfstæð stofnun og hefur sérstöðu að því leyti en með því að setja inn ytra matið fáum við um leið hugmynd um hvernig starfsemin virkar. Það er eins konar eftirlit með ytra mati þar sem staðan er tekin og við hér, löggjafinn, getum þá brugðist við ef þessi mikilvæga stofnun starfar ekki eins og ætlast er til. Þess vegna er þessi breytingartillaga 1. minni hluta svo mikilvæg.

Auk þess var í breytingartillögum meiri hlutans sem við erum búin að afgreiða hér gert ráð fyrir því að seðlabankastjóri og varaseðlabankastjórar sem fara fyrir þessum mikilvægu nefndum komi fyrir þingnefnd og fari yfir stöðu mála. Í því er líka fólgið aðhald og eftirlit.