149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar í fiskeldismálinu. Nánast allar breytingarnar sem þar er að finna hafa verið boðaðar og ættu ekki að koma neinum á óvart. Það var tilkynnt um það strax í upphafi að draga ætti til baka breytingartillögu sem snýr að meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi á svæðum sem þegar hafa verið metin til burðarþols. Eins og kom fram við 2. umr. drógum við í meiri hlutanum til baka nokkrar breytingartillögur frá okkur og hið sama gerðu þau sem stóðu að minnihlutaálitinu. Þær voru svo sameinaðar í þetta nefndarálit með breytingartillögu.

Það hefur gerst í millitíðinni að þó að fleiri þingmenn standi að þessu áliti en meiri hlutinn einn, líkt og var með nefndarálit eftir 1. umr., má segja að veður hafi skipast þannig í lofti að þeir tveir hv. þingmenn Miðflokksins sem sitja í atvinnuveganefnd og voru með á nefndarálitinu eftir 1. umr. eru ekki með á þessu nefndaráliti. Hins vegar hefur hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, sem var framsögumaður minnihlutaálitsins, ritað undir nefndarálitið þó að hún standi ekki að breytingartillögunni sem lögð er fram á sérskjali.

Ég verð að segja, forseti, að mér þykir miður að við skyldum ekki geta sameinast í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á sérskjali. Þær eru allar þess eðlis að þær rúmast vel innan þess anda sem unnið hefur verið eftir í nefndinni, um að styrkja betur umgjörðina utan um fiskeldi, að stíga skref í átt til þess að tryggja rétt bæði almennings til upplýsinga og eins fyrirsjáanleika og ekki síst að skjóta styrkari stoðum undir vísindin og rannsóknir sem undir öllu þessu eru.

Ég ætla ekki að lesa allt nefndarálitið, það geta þingmenn gert sjálfir. Viðamesta breytingin sem lögð er til í nefndaráliti með breytingartillögu fyrir utan meðferð leyfa er sú að Hafrannsóknastofnun ákveður skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði á grundvelli burðarþols og bestu heildarnýtingar mögulegra eldissvæða. Áður skal stofnunin leita umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og, þar sem við á, svæðisráðs viðkomandi svæðis um tillögu sína, samanber lög um skipulag haf- og strandsvæða.

Þetta er í raun og veru hið sama og var í breytingartillögum meiri hlutans eftir 2. umr., með leyfi forseta:

„Þar sem strandsvæðisskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, liggur fyrir skal Hafrannsóknastofnun taka tillit til þess við ákvörðun um skiptingu í eldissvæði. Þar sem strandsvæðisskipulag liggur ekki fyrir skal Skipulagsstofnun birta tillögu Hafrannsóknastofnunar opinberlega á vefsíðu stofnunarinnar og veita þriggja vikna frest til að skila inn athugasemdum áður en stofnunin veitir umsögn til Hafrannsóknastofnunar.“

Þessi breyting verður til þess að tilkynning um alla skiptingu fjarða í hafsvæði eða eldissvæði er auglýst þannig að almenningur hefur færi á að koma með athugasemdir innan þriggja vikna í anda Árósasamningsins og réttar almennings til upplýsinga. Þau svæði sem eru innan skipulags haf- og strandsvæða hefur áður orðið að auglýsa, eins og venjan er með skipulag, og fyrirmyndin er sótt í skipulagslög. Þetta er auglýst þannig að almenningi gefst kostur á að koma með athugasemdir.

Síðan er einu orði skotið inn hvað varðar þá vísindanefnd sem skipuð er á sviði fiskifræði, stofnerfðafræði og/eða vistfræði til að rýna aðferðafræði áhættumatsins. Það er ítrekað að það er nefnd þriggja óvilhallra vísindamanna. Þetta er gert til að undirstrika enn frekar að við séum að tala um faglega rýni og trúverðugleika á aðferðafræði Hafrannsóknastofnunar. Við teljum að þetta auki trúverðugleikann enn frekar.

Síðan eru efnisminni breytingartillögur sem ég hvet þingmenn til að kynna sér.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og sá sem hér stendur.

Mér er hins vegar skylt að greina frá því að ég skrifa undir þetta álit með fyrirvara. Fyrirvarinn snýr ekki að því sem ég hef farið yfir hér heldur að breytingartillögunni á þskj. 1920 sem hefur verið dreift með og lýtur að meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi sem þegar eru komnar fram. Ég kynni þá tillögu, forseti, og útskýrir svo fyrirvara minn í örstuttu máli. Tillagan á því skjali fjallar um b-lið 24. gr. og hljóðar þannig:

„Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar samkvæmt 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“

Hér er margboðuð breytingartillaga sem snýr að því að, eins og ég hef orðað það, loka dyrunum á eftir gamla kerfinu þannig að umsóknir fari sem mest inn í nýja kerfið eftir að nýju lögin hafa verið samþykkt. Vilji meiri hluta nefndarinnar kom skýrt fram í nefndaráliti við 2. umr. Síðan höfum við unnið að því með stjórnkerfinu að finna bestu leiðina til að þessi skurðpunktur verði sem skýrastur.

Mig greinir á við félaga mína í meiri hluta hv. atvinnuveganefndar. Hér er miðað við að frummatsskýrslu hafi verið skilað. Ég tel að bæði sé betra og skýrara að miða við að matsskýrslu hafi verið skilað, það uppfylli betur þær hugmyndir sem meiri hlutinn setti fram um hvaða áhrif hann vildi að umrædd breyting hefði í för með sér.

Hins vegar lít ég svo á að það mál sem við erum að vinna að saman sé risastórt og mikilvægt og að þetta séu afar góð skref sem við erum að stíga í þessu máli í átt til þess að ná eins víðtækri sátt og hægt er yfir höfuð um fiskeldi hér á landi. Við vitum öll að gríðarlega skiptar skoðanir ríkja um fiskeldi, fólk hefur mjög sterkar skoðanir á því. Þess vegna finnst mér miður að við höfum ekki öll getað sameinast, hvar í flokki sem við stöndum, um það hvernig við viljum sjá þetta. Ef við getum ekki sameinast um það hvernig við viljum sjá þessi mál getum við ekki endilega ætlast til þess að fólk utan þessara veggja sameinist, eða hvað? Þannig hugsaði ég þegar ég ákvað að styðja þessa tillögu þótt ég væri í grunninn sannfærður um að það væri betra að fara aðra leið. En ég veit að ég hef í fyrsta lagi ekki alltaf rétt fyrir mér, í öðru lagi virði ég lýðræðislegan vilja og í þriðja lagi er svo mikilvægt að þetta mál verði að lögum að skiptar skoðanir um eina breytingartillögu eru, með leyfi, forseti, tittlingaskítur í stóra samhenginu. Þess vegna mæli ég fyrir þessu og líka breytingartillögu sem ég geri fyrirvara við en styð. Ég ítreka að ég hefði viljað fara aðra leið en ég styð þessa tillögu.