149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir andsvarið. Ég tók það einmitt sérstaklega fram að ég vissi ekki hversu margir aðilar féllu undir þetta. Punkturinn hjá mér er sá að leyfisumsóknir þar sem verið er að óska eftir stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi falli undir gamla kerfið. Það er akkúrat það sem ég sagði. (JÞÓ: Áttu við um …?) Fyrirgefðu? Það er það sem ég segi hérna og út á það gengur breytingartillaga mín.

Það getur ekki verið markmið þessara nýju laga að stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi fari á uppboðsmarkað og geti lent hjá hverjum sem er, er það? Er það markmiðið með þessari lagasetningu að upp geti komið sú staða að það verði grautað saman rekstraraðilum á takmörkuðu svæði? Ég held að það sé ekki markmiðið. Ég er eiginlega alveg viss um að það er ekki markmiðið.

Ég held að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, hafi misskilið mig eitthvað. Það sem ég er að tala um er ferli sem er í gangi og getur hafa staðið yfir árum saman, hvar á landinu sem það kynni að vera. Framsögumaður málsins nefndi áðan tiltekið dæmi. Ég veit um eitt en það getur vel verið að það séu fleiri en það getur ekki verið markmiðið að stækkun á þegar útgefnu rekstrarleyfi fari til annars aðila en hefur það í dag. Það getur ekki verið.