149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:55]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tel að með þessum breytingum á lögum um fiskeldi séum við að skapa skýrari umgjörð um fiskeldi á Íslandi til framtíðar. Eins og fram hefur komið, kannski óþarflega oft í þessum ræðustól, hefur samvinna í nefndinni og vinnan að málinu í henni verið til fyrirmyndar þó að við höfum ekki náð saman um öll atriði málsins að lokum.

Nefndin leggur til nokkrar breytingartillögur við 3. umr. þar sem tekið er tillit til nokkurra tillagna minni hlutans. Þar tel ég sérstaklega mikilvægt að kveðið sé á um kynningu á skiptingu eldissvæða á þeim svæðum þar sem ekki er í gildi strandsvæðaskipulag. Sömuleiðis verður kveðið skýrt á um að nefnd vísindamanna sem eiga að fjalla um áhættumat erfðablöndunar skuli vera skipuð óvilhöllum aðilum. Að lokum er nefndin sammála um mikilvægi þess að til staðar sé framtíðarsýn fyrir fiskeldi sem miði að því að tryggja að fiskeldi á Íslandi verði í fremstu röð hvað varðar framleiðslu, umhverfisþætti og sjálfbærni. Allt eru þetta atriði sem við teljum að styrki málið mjög og fögnum því að samkomulag hafi náðst milli minni og meiri hluta nefndarinnar um þessi atriði.

Auðvitað eru atriði í löggjöfinni sem ég tel að hefðu mátt fara öðruvísi en þetta er niðurstaðan og ég tel að hún sé til bóta.

Sú leið sem meiri hlutinn hefur valið varðandi tilhögun leyfismála á burðarþolsmetnum svæðum er hins vegar ákveðin vonbrigði, enda er sjálfur framsögumaður málsins á tillögunni með fyrirvara. Sú leið sem valin er þýðir að lítið magn, ef eitthvert, verður eftir á burðarþolsmetnu svæðunum til úthlutunar samkvæmt nýju lögunum. Það tel ég sérstaklega slæmt enda hef ég, eins og ég hef sagt áður, þá trú að með nýju löggjöfinni komi inn mikilvæg atriði við mat á umsóknum, eins og t.d. upphæð tilboðs, reynsla af fiskeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað rekstur sinn og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn. Allt eru þetta atriði sem ég tel mikilvægt að verði horft til við mat á umsóknum og hefði ég því viljað sjá stærri hluta fiskeldisleyfa fara eftir nýju löggjöfinni í stað þess að það sé einfaldlega fyrstur kemur, fyrstur fær eins og er í þeirri gömlu.