149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[19:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Það er einstaklega gaman að vera í salnum með þér, jafn oft og við erum hér í salnum. Ég sé að hv. þm. Jón Þór Ólafsson er kominn. Hann tekur kannski sæti mitt hér næst á eftir.

Það er rétt að geta þess, virðulegi forseti, að samstaða í nefndinni hefur verið afar góð í þessu máli. Við erum búin að vinna mánuðum saman að því máli sem hér er til umræðu og ég verð að segja eins og er, jafn ólík og við erum öll og með ólíkar skoðanir, að það hefur gengið vel að vinna þetta mál undir öruggri forystu hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés sem er framsögumaður þessa máls og formanns nefndarinnar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Við erum búin að hitta gríðarlega marga og höfum átt fundi með fólki erlendis, í Noregi eins og hér hefur komið fram, til að setja okkur sem best inn í þessi mál. Það sem mér finnst ánægjulegast við lok allrar þessarar vinnu er að allan þennan tíma höfum við verið eins og með autt blað fyrir framan okkur án þess að vita hvaða fyrirtæki það væru sem við værum að hugsa um og vinna fyrir, hvaða svæði það væru. Núna í lokin þegar síminn hringir mikið getum við alveg með sannleika sagt, að ég hygg allir nefndarmenn, að við höfum unnið af heilum hug að þessu máli og reynt að landa því fyrir heildina án þess að hugsa um einhverja sérhagsmuni. Það hefur verið algjörlega þannig.

Það eru mjög viðkvæm mál sem við erum að fara með og viðkvæmast af því öllu var auðvitað þegar við þurftum að finna þann skurðpunkt þegar lögin áttu að taka gildi. Það liggur fyrir að skurðpunkturinn mun miðast við frummatsskýrslur þar sem fyrirtækin hafa eytt mestum tíma og mestum peningum í að undirbúa þau leyfi sem þau sækjast eftir. Það hefur líka verið upplýst í nefndinni og okkur sagt að öll sú vinna og allir þeir peningar sem fyrirtæki sem hafa ekki náð því marki að vera búin að skila frummatsskýrslu munu nýtast í áframhaldandi vinnu. Það er gríðarlega mikilvægt og ég verð að segja alveg eins og er að fyrir mig var mikill léttir að vita þegar við þyrftum einhvers staðar að skera á málið að hinir miklu peningar þeirra fyrirtækja sem náðu ekki inn og þeirra dýra vinna myndu nýtast áfram. Það er huggun harmi gegn.

Við verðum líka að átta okkur á því að við erum að tala um að burðarþolsmetið fiskeldi á Íslandi er u.þ.b. 144.000 tonn og eins og kom fram í máli framsögumanns var meiningin að töluverðu af því magni yrði úthlutað samkvæmt nýjum lögum. Það var farið af stað með það. Það er eitt af þeim verkefnum sem við settum okkur í upphafi. Þegar tíminn hefur liðið og staðan hefur skýrst kemur í ljós að eftir að við höfum samþykkt þessi lög munum við trúlega standa uppi með það að 122.000 tonnum af þessum 144.000 er meira og minna þegar úthlutað eða komin í þann farveg að verða úthlutað.

Það liggur fyrir strax að þegar hefur verið úthlutað 50.000 tonnum. 15.000 tonn eru á bráðabirgðalögum sem við settum í haust og önnur 15.000 tonn komin á lokametrana. Svo eru 17.000 tonn samkvæmt matsskýrslu. Með því að taka skurðpunktinn um frummatsskýrslu erum við að tala um 20.000–25.000 tonn sem gerir það að verkum að við erum að landa þessu máli með því að klára nánast burðarþolið. Þá eru 24.000–25.000 tonn eftir. Það er langt umfram það sem við ætluðum upphaflega og ekki hægt að segja að með þessu þyngi þingið róður þessara fyrirtækja eða komi í veg fyrir það að þau geti vaxið og dafnað.

Ef ég man rétt voru framleidd u.þ.b. 11.000 tonn á síðasta ári. En við hlökkum til að sjá það vaxa og dafna og það veitir ekki af fyrir samfélagið sem þarf á milljarði í nýjum tekjum að halda í hverri einustu viku næstu 20 árin ef við ætlum að halda í 3% hagvöxt í þessu landi. Það er gríðarlega mikilvægt. Sóknarfærin eru í laxeldinu. Þar eru gríðarleg sóknarfæri. Við treystum þessum fyrirtækjum til að bera okkur inn í framtíðina á þessum vængjum og auka tekjurnar og vera virkilega sú grein sem kannski er mest horft til í dag um vöxt í þessu landi.

Mig langar bara til að það komi hér fram að við teljum okkur hafa gengið eins langt og nokkur kostur var. Á síðustu metrunum er mjög mikilvægt að við reynum að tala áfram einum rómi til að klára þetta mál í sátt og samlyndi, eins og hér hefur komið fram. Það hefur aldrei verið hugmynd okkar að grauta fyrirtækjum saman í firðinum. Það er alls ekki heppilegt og eitt af því fyrsta sem var sagt við okkur var að helst ætti að koma í veg fyrir að það væri meira en eitt fyrirtæki í hverjum firði og á hverjum stað. Þegar við komum að þessu máli var það hins vegar ekki hægt af því að sú staðreynd blasti við að fleiri en eitt fyrirtæki voru komin á suma staðina. Auk þess eru firðirnir mjög stórir og ef áhættumatið leyfir kannski í framtíðinni laxeldi í Ísafjarðardjúpi er varla hægt að ætlast til þess að eitt fyrirtæki verði þar með 30.000 tonna eldi. Þar eru líka gríðarleg tækifæri.

Við höfum rætt áhættumatið áður, það er líka verkfæri sem er alveg á heimsmælikvarða þannig að atvinnuveganefnd og þingið getur gengið hnarreist frá borði þegar við höfum lokið þessu máli, þess fullviss að við séum að setja góð lög með góðri samvisku.