149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

skilgreining auðlinda.

55. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Bergþór Ólason) (M):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að gleðja forseta með því að framsöguræða verður knöpp, allt með það að markmiði að þingstörf geti haldið áfram á tilhlýðilegum hraða. Ég er kominn hingað til að mæla fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda frá umhverfis- og samgöngunefnd. Undir það rita allir nefndarmenn fyrirvaralaust og vil ég lýsa yfir ánægju með það. Þetta er mál sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson flutti fyrr á þinginu og kemur nú til afgreiðslu.

Ég ætla ekki að lesa upp gesti og umsagnaraðila en, með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr álitinu:

„Samkvæmt tillögunni felur Alþingi umhverfis- og auðlindaráðherra að leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi þar sem skilgreint verði hvað flokkist til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru. Sérfræðingar á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar vinni drög að frumvarpinu.“

Með þessu máli er verið að reyna að ná saman á einn stað þeim helstu sjónarmiðum sem uppi eru varðandi auðlindir Íslands, hverrar gerðar sem þær eru. Staðreyndin er sú að við erum oft ansi föst á mjög afmörkuðu sviði auðlindaumræðunnar, langmest auðvitað í tengslum við fiskveiðilöggjöfina. Í dag höfum við verið að ræða um fiskeldi. Það er ákveðin auðlind, það rými sem hentar til slíkrar starfsemi, t.d. þang og jarðhiti. Listinn er langur sem getur fallið þar undir en með þessu er markmiðið, eins og ég segi, að ná utan um þetta þannig að þingheimur eigi auðveldara með að ræða auðlindamál með fast land undir fótum.

Sambærileg þingsályktunartillaga hefur verið flutt áður á þingi en nú stendur von okkar sem komum að málinu og skrifum undir nefndarálitið að málið komist loksins til framkvæmdar. Er það tillaga mín að málinu verði vísað til ríkisstjórnar til frekari vinnslu og afgreiðslu.

Rétt er að taka fram að Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir. Að öðru leyti skrifa allir nefndarmenn undir, Jón Gunnarsson, Bergþór Ólason, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vona að málið fái framgang og verði okkur öllum til gagns á næstu misserum eftir að þessi vinna hefur átt sér stað.