149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[20:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mál það sem við ræðum er býsna viðamikið og felur í sér umtalsverðar breytingar. Ég held að frumvarpið sé í fyrsta lagi lagt fram af góðum ásetningi, en eins og fram kemur skrifa ég undir álitið með fyrirvara. Í grunninn tel ég að málið sé gott og markmiðin góð, þ.e. að líta í ríkari mæli á skólann sem sinnir fræðsluskyldu og skólaskyldu, þ.e. skólaskyldunni upp að 16 ára aldri og síðan fræðsluskyldu til 18 ára aldurs, að mjög mikilvægt sé að við lítum á þetta sem eina heild. Þrátt fyrir að það sé ein heild eru samt eðli málsins samkvæmt mismunandi áherslur í kennslu, kennsluaðferðum og námsefni. Það leiðir auðvitað af sjálfu en við þurfum samt að líta einhvern veginn á þetta allt saman sem eina heild. Og þó að það sé ekki efni þessa frumvarps held ég að mjög æskilegt væri að skoðað yrði í framhaldinu að gera þær breytingar á skóla sem sinnir fræðsluskyldunni, þ.e. fræðslu barna upp að 18 ára aldri, að litið sé þetta sem einn skóla og horfa á þetta þannig. Ég held að í sjálfu sér geti frumvarpið verið ágætur liður í þeirri hugsun sem ég tel að við verðum að temja okkur og sé því, sem mestu máli skiptir, á endanum nemendunum fyrir bestu og sé til þess fallið að tryggja bestu menntunina. Aðalatriðið í málinu er að þeir sem í skólanum eru fái bestu menntun og kennslu sem nokkur möguleiki er á.

Óhætt er að segja, og kom fram hjá framsögumanni málsins, og hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni sem einnig hefur tekið til máls, að það er mjög miður að ekki hafi tekist — og sjálfsagt eru ýmsar ástæður fyrir því sem bæði er hægt að setja á reikning kennarasamtakanna, þ.e. fagfélaga kennara, og sjálfsagt að einhverju leyti á þá sem hafa verið að vinna þetta mál, undirbúa og kynna — að ná sammæli um að þetta sé allt saman til bóta. Þarf svo sem ekki að tala neitt rósamál í kringum það að ágreiningur er fyrst og fremst af hálfu framhaldsskólakennara um að málið sé gott, þeim þykir að vegið sé að sérstöðu þeirra og hlutverki í þessu kerfi.

Ég er reyndar ekki alveg sannfærður um að það sé að öllu leyti rétt mat, en það skiptir svo sem engu máli hvert mitt mat er í því ef það er mat kennaranna sjálfra sem í hlut eiga. Það er miður og að því lýtur sá fyrirvari sem við hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson gerðum og er búið að gera hér rækilega grein fyrir.

Lagt hefur verið í þá vegferð að reyna að finna grunn að því, eftir að frumvarpið kom fram og er komið til meðferðar þingsins, að ná einhvers konar betra samkomulagi um málið í heild sinni. Það hefur ekki alveg tekist og er auðvitað mjög miður. Ég held samt, og þó að ég tali mikið um mikilvægi þess að sammæli og sátt náist, að þegar búið er — ég er ekki að segja að það sé búið núna — að reyna til þrautar að ná samkomulagi um hvernig Alþingi og menntamálayfirvöld hafa hugsað sér að skipa málum verður á endanum að höggva á þann hnút. Auðvitað er best, ef hægt er, að leysa hnútinn og að því þurfum við að vinna og að því lýtur þessi fyrirvari.

Varðandi það hvort skynsamlegt er annaðhvort að fresta málinu í heild eða fallast á breytingartillögur sem hv. framsögumaður hefur lagt fram í eigin nafni, þ.e. að fresta gildistökunni og reyna að ná samkomulagi, veit ég ekki alveg hvað er best í því. Ég vil þó segja að ég held að á endanum skipti kannski ekki alveg höfuðmáli hvor leiðin er farin í rauninni. Málið snýst um að reyna að ná samkomulagi sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt og fyrir mína parta get ég í sjálfu sér fallist á breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram um þessa frestun á gildistökunni og tilraunum til að ná sáttum og jafnframt held ég að ég verði að taka fram að ég áskilji mér rétt til þess í framhaldinu þegar þessar sáttatilraunir allar hafa verið lagðar fram. Mér þykir líklegt að þær muni óhjákvæmilega leiða til þess að gera þurfi breytingar á þeim lögum sem fyrir verða. Ég held að mikilvægt sé að brýna það fyrir hæstv. menntamálaráðherra að hafa þá opin augu fyrir því hvort og hvað er hægt að gera annað en bara að takast á við hið einangraða vandamál, af því að málið fjallar um miklu meira en bara leyfisbréfið og þennan ágreining sem er uppi, eða mismunandi sjónarmið skulum við segja, milli kennarafélaganna um þátt uppeldis- og kennslufræðinnar og sérgreinarinnar hins vegar. Mjög mikilvægt er að horfa á málið allt og vita hvort hægt er að sníða það þannig — ég er ekki með neinar tillögur í því samhengi — að menn hafi mjög opinn huga þegar menn koma að þessu til að reyna að endurnýja málið með einhverjum hætti. Eða vera tilbúnir til þess ef það er það sem til þarf og leggja þá fram tillögur og frumvörp í þeim efnum. Ég veit að ekki mun standa á hv. allsherjar- og menntamálanefnd að takast á við það verkefni ef það kemur á hennar borð. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Þó að ég hafi talað um að á endanum þurfi að höggva á hnúta er gríðarlega mikilvægt að við reynum allt sem við getum til að leysa úr þessu máli með farsælum hætti.

Ég ætla að ljúka máli mínu á þessu, að það er eiginlega mikil ábyrgð sem hæstv. menntamálaráðherra fær í fangið, nauðug viljug sjálfsagt, að reyna að koma þessu þannig fyrir að víðtækari sátt geti orðið um málið. Ég vil að það komi fram úr þessum ræðustól að það er líka mikil ábyrgð á herðum kennarasamtakanna og kennarafélaganna allra að vinna að því af opnum huga að vita hvort hægt er að finna leiðir til að greiða úr þessu.