149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[21:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að byrja á að nefna að þótt ég eigi sæti í allsherjar- og menntamálanefnd var ég ekki viðstaddur fundinn þegar málið var afgreitt úr nefndinni og kom því ekki að samþykkt nefndarálitsins sem við ræðum hér. Eins og hefur komið fram hjá flestum ræðumönnum, heyrist mér, er alveg ljóst af umfjöllun nefndarinnar að fjölmörg tækifæri til framþróunar skólakerfisins eru í þeim hugmyndum sem koma fram í frumvarpinu. Hins vegar vantar ákveðinn herslumun upp á að allt gangi saman. Oft er það þannig að herslumunurinn er kannski mesti munurinn. Það birtist í því, sem hér hefur líka komið fram í umræðunni, að það hafa komið fram verulegar athugasemdir við málið sem ég tel mjög mikilvægt að bregðast við. En það næst ekki á þessu þingi, það næst ekki á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar fyrir þinglok sem verða væntanlega á morgun. Það er vinna sem þarf að gera af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Umfjöllun nefndarinnar snerist mikið um hugmyndina um eitt leyfisbréf til kennslu fyrir öll skólastig en fram hefur komið að Félag framhaldsskólakennara leggst eindregið gegn þeirri breytingu á meðan önnur félög innan vébanda Kennarasambandsins eru jákvæðari gagnvart þeirri breytingu. Að mínu mati er það lykilatriði, þegar löggjafinn breytir ákvæðum laga sem snúa beint að grundvallarréttindum vinnandi fólks, að þá sé það ekki gert í mikilli ósátt við þann hóp sem um ræðir. Hér er ég ekki að tala um að allir eigi að ganga fullkomlega sáttir frá borði heldur einfaldlega að ekki sé ólgandi ágreiningur um málið sem ég tel því miður vera stöðuna varðandi leyfisbréfin og framhaldsskólakennara sérstaklega. Þess vegna þykir mér sú breytingartillaga sem komin er frá hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni góð að því leyti að hún býr til ákveðið svigrúm til að freista þess að ná þeirri sátt sem þarf inn í málið með því að fresta gildistöku og bæta við ákvæði til bráðabirgða um starfshóp sem taki á þessum málum. Þar að auki held ég að með þessari frestun sé einfaldlega komið til móts við kaldan veruleika málsins sem er sá að innviðirnir voru væntanlega ekki tilbúnir að taka við þessari breytingu fyrir næsta skólaár. Menntamálastofnun hefði þurft að breyta sínum kerfum og væntanlega ekki náð því í tæka tíð þannig að þessi breytingartillaga er með góðri raunveruleikatengingu og ég fagna því. Það er samt mikilvægt að halda því til haga að þó að leyfisbréfin hafi tekið drjúgan hluta af umfjöllun nefndarinnar eru þau alls ekki eina atriðið sem vantar herslumuninn upp á.

Ég segi herslumun aftur af því að það vantar ekki svo mikið upp á. Það á að vera hægt að nýta nokkrar vikur, örfáa mánuði, á haustmisseri til að ná utan um þetta mál ef allir koma viljugir að borðinu. Sem dæmi um slík efnisatriði er það að kennararáði er falið víðtækt hlutverk í frumvarpinu. Það var bent á að hlutverk þess sé óljóst og að mikilvægt sé að skýra betur formlega stöðu ráðsins, m.a. með hliðsjón af hlutverki sambærilegra kennararáða erlendis. Svo er lögfesting hæfniviðmiða mikil breyting. Það var bent á að inntak þeirra einkenndist af núgildandi menntastefnu, en menntastefna er einmitt í endurskoðun þessa dagana, en jafnframt að árekstrar geti komið upp á milli hæfniviðmiðanna og gæða- og hæfniviðmiða sem háskólar hafa skilgreint um inntak kennaramenntunar sem sömuleiðis eru í endurskoðun þessa dagana. Það er mikið í deiglunni sem þetta mál hefði gott af því talast á við.

Þá hafa komið fram ábendingar um að frumvarpið dragi úr sérhæfðri hæfni og menntun kennara og þar sem afar mikilvægt er að útfærsla hæfniviðmiða sé vönduð og ígrunduð færi mögulega betur á að viðmiðin sjálf séu skilgreind í reglugerð frekar en í lögum eins og hér er lagt til. Þessi tvö atriði, kennararáð og hæfniviðmið, komu til að mynda fram í umsögn Kennarasambandsins, regnhlífarsamtaka kennara á Íslandi, og við þeim er ekki brugðist í tillögum allsherjar- og menntamálanefndar.

Þá var bent á að frumvarpinu er ætlað að tryggja atvinnuöryggi fyrir kennara sem flytja sig á milli skólastiga en þeir hafa til þessa þurft að stóla á tímabundna ráðningu sem leiðbeinendur. Þetta hefur verið bagalegt ástand fyrir þá kennara sem mætti auðvitað leysa með því að þeir sem reka skólana greiddu þeim einfaldlega laun sem kennurum frekar en að pína þá niður á leiðbeinendalaun eða að þeir sem reka skóla myndu meta starf leiðbeinandans nær því sem starf kennarans er metið, að framlag einstaklingsins væri metið meira. Það eru útfærsluatriði sem eiga kannski frekar heima í kjarasamningum, en þetta aukna flæði er eitthvað sem ýmis aðildarfélög Kennarasambandsins fagna. Á móti kemur að Alþýðusambandið t.d. setur spurningarmerki við það hvers vegna ekki sé leitað leiða til að styrkja stöðu þeirra sem ekki hafa kennaramenntun og leyfisbréf, svo sem leikskólaliða sem hafa búið við sama óöryggi og aðrir leiðbeinendur, að ganga á eins árs ráðningarsamningum en vera oft mjög góðir í sínu starfi. Eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði: Þú þarft bara að vera flinkur kennari með samkennd og frásagnarhæfileika og gott hjartalag.

Við þessu er ekki brugðist í tillögum allsherjar- og menntamálanefndar en ætti vel heima í þeirri skoðun sem fram undan er.

Þá stöndum við eftir með spurninguna sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson spurði: Ja, ef við erum hvort eð er að fresta málinu með því að fresta gildistöku þess, af hverju þá ekki að fresta afgreiðslu málsins líka? Við höfum tvær leiðir að þessu. Við getum breytt lögunum í dag og skapað sáttina á morgun. Út á það gengur breytingartillagan frá Þórarni Inga Péturssyni. Hins vegar getum við skapað sáttina í dag og breytt lögunum á morgun. Ég er hrifnari af síðari útgáfunni af því að hin útgáfan, sú sem byggir á breytingartillögunni sem hér liggur fyrir, felur í sér þá áhættu að samtalið í sáttanefndinni renni út í sandinn og þá stöndum við frammi fyrir því í lok þessa árs, þegar lögin taka gildi, að ekki hefur skapast nein sátt og ekki hafa unnist neinar breytingar á málinu. Þar með hefðum við gert það sem mér þykir svo mikilvægt að við gerum ekki, þar með hefðum við breytt ákvæðum laga sem snúa beint að grundvallarréttindum vinnandi fólks í bullandi ósætti við þann hóp.