149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[22:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér fjöllum við um frumvarp til nýrra heildarlaga um póstþjónustu, heildarlaga sem gjörbreyta umhverfi póstþjónustu í landinu. Fyrir liggur að afnám einkaréttar í póstþjónustu er á næsta leiti og því stendur til að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að haga málum varðandi dreifingu pósts um allt land. Markmið laganna er sagt vera að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um allt land sem og til og frá landinu. Þannig er ætlunin að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.

Herra forseti. Hér er verið að innleiða þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins og að með því verði einkaréttur ríkisins á póstþjónustu afnuminn og markaðurinn opnaður. Ísland er síðasta EES-ríkið til að innleiða þessa tilskipun og má segja að enn einu sinni séum við langt á eftir öðrum Evrópuríkjum við innleiðingu, en tilskipunin er frá árinu 2008.

Herra forseti. Það er ekki eins og þessi tilskipun hafi komið af himnum ofan og að við þurfum að bregðast við í flýti, langt því frá, því að þetta hefur verið fyrirséð síðasta áratuginn eða svo. Það hefur verið fyrirséð síðasta áratug að einkaréttur íslenska ríkisins á póstdreifingu yrði afnuminn fyrr eða síðar en núna, þegar þetta er loksins að verða að veruleika, eru stjórnvöld bara ekki alveg tilbúin, því miður.

Í umræðu um Íslandspóst ohf. undanfarin ár og þá bágu stöðu sem það félag hefur óneitanlega verið í hefur ávallt verið talað um fyrirhugað afnám einkaréttar og hversu mikilvægt það sé að undirbúa afnámið og tryggja stöðu Íslandspósts og að við séum með einhvern fyrirsjáanleika hér. Hafa stjórnvöld sinnt þessu hlutverki? Nei, stjórnvöld hafa enn einu sinni sofið svefni hinna réttlátu og eftir stöndum við hér með opinbert hlutafélag sem er bæði í bráðum fjárhagsvanda og þrálátri tilvistarkreppu sem ríkisstjórn Íslands er bara ekkert að gera í. Og meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar ætlar heldur ekkert að gera í því.

Ég ætla ekki að rekja hér nýjungar eða breytingar á lögunum. Það er margt ágætt í þessum heildarlögum og ýmislegt sem vandlega hefur verið unnið en það er ekki hægt að horfa fram hjá þeirri hróplegu staðreynd að fyrir nokkrum dögum, bara núna fyrir helgi, skilaði ein af eftirlitsstofnunum Alþingis, hin sjálfstæða og óháða Ríkisendurskoðun, heildstæðri skýrslu sem unnin hefur verið undanfarna mánuði þar sem farið er yfir stöðu Íslandspósts, rekstrarumhverfi og framtíðarmöguleika. Þar er líka fjallað um afnám einkaréttar og tillögur að framtíðarskipan póstþjónustu á landinu.

Og hvað gerir hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem er að fjalla um heildarlög um póstþjónustu við umrædda skýrslu, við þær mikilvægu upplýsingar sem í skýrslunni er að finna? Ekki neitt. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki séð skýrsluna. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd vill ekki sjá skýrsluna. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi Íslendinga vill ekki að fagnefndin sjái og vinni skýrsluna og vill ekki að nefndin sé meðvituð um hvað í skýrslunni stendur áður en tekin er ákvörðun um lagasetningu af þeirri stærðargráðu sem við erum að fást við hér.

Það er ekki laust við að sú sem hér stendur hafi flissað í morgun þegar þetta reyndist raunin. Þess vegna, herra forseti, get ég ekki undir nokkrum kringumstæðum skrifað upp á þá málsmeðferð sem stjórnarflokkarnir iðka hér. Minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur ítrekað óskað eftir því að hv. umhverfis- og samgöngunefnd bíði með afgreiðslu frumvarpsins þar til nefndin hefur kynnt sér það sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Á nefndarfundi í dag bókaði minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar af því tilefni mótmæli við því að málið skyldi tekið út úr nefndinni í dag. Þetta er ekki dagsetningarmál, herra forseti. Það er engin bráð hætta á ferð enda eiga lögin að taka gildi 1. janúar 2020. Sérstaklega var óskað eftir því að beðið yrði með að taka þetta mál út, að nefndin myndi kynna sér innihald skýrslunnar um Íslandspóst og póstþjónustuna, um alþjónustuna, alþjónustubyrðina. Nei, það er betra að kynna sér ekki málin. Málið var tekið út þrátt fyrir að embætti sem Alþingi hefur falið að rannsaka stöðu félagsins hafi skilað af sér skýrslu. Fyrir liggur að lög um póstþjónustu eiga samkvæmt frumvarpinu ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót og því taldi minni hluti nefndarinnar hægðarleik fyrir Alþingi að reyna nú einu sinni að vanda verk sitt, bregðast við því sem þar kemur fram ef þörf reyndist í stað þess að fara strax í það á næsta löggjafarþingi að lagfæra það sem þegar er búið að gera, að vert væri að laga það áður en skaðinn er skeður, áður en lögin taka gildi með einhverjum viðbótum eftir að heildarlögin hafi verið samþykkt.

Fyrir liggur að afnám einkaréttar í póstþjónustu er á næsta leiti. Það hefur lengi legið fyrir en slík grundvallarbreyting sem hér er á ferðinni krefst yfirvegunar og vandvirkni löggjafans.

Herra forseti. Það er því miður allt of algengt á Alþingi Íslendinga að farið sé í lagasetningu án þess að sjá fyrir endann á afleiðingum lagasetningar, útfærslum á áhrifum lagasetningar o.fl. Þegar skaðinn er skeður byrjar Alþingi að sauma búta, laga og snikka til og heildarmyndin tapast og lögin verða því miður verri smíði en nauðsynlegt er. Þetta höfum við ítrekað séð, því miður.

Póstþjónusta er grunnþjónusta sem íslenska ríkið hefur sinnt og má kalla póstþjónustu innviði. Það er því nauðsynlegt að stjórnvöld taki það verkefni alvarlega að tryggja alþjónustu og að ekki verði sköpuð aðstaða lík þeirri sem meiri hlutinn leggur m.a. til, að handvalinn verði aðili til að sinna þessari þjónustu, aðili sem íslenskir skattgreiðendur hafa nú þurft að sturta hundruðum og þúsundum milljóna til á undanförnum árum.

Herra forseti. Um hvað erum við að tala? Erum við að tala um vönduð vinnubrögð? Erum við að tala um heildarsýn? Erum við að tala um yfirvegun? Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr nefndaráliti meiri hlutans er varðar val á þjónustuveitanda. Þar stendur um 11. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir þremur mismunandi leiðum til að tryggja alþjónustu […] Ráðherra er falið að ákveða hvaða leið sé farin. […] Að auki er nauðsynlegt að ákvörðun byggist á nauðsynlegum upplýsingum.“

Nefndin ætlar ekki að leggja neitt til en leggur áherslu á að við ákvörðun um val á þjónustuveitanda verði litið til þess að tryggja að gagnsæi sé til staðar, m.a. um kostnað þjónustu, að ákvörðun byggist á nauðsynlegum upplýsingum og talar um að í greininni sé að finna heimild ráðherra til að láta framkvæma markaðskönnun þar sem metið er hvort nauðsynlegt sé að tryggja alþjónustu með samningi eða útnefningu.

Nefndin telur sem sagt mikilvægt að framkvæmd verði rannsókn og könnun og málið skoðað ítarlega. Þá getur maður ekki sleppt því að spyrja: Hvernig má það vera að þessi vinna sé ekki hafin? Hvernig má það vera þegar við erum að innleiða tilskipun frá 2008 að ekki sé búið að gera þetta af alvöru, hvorki í ráðuneytinu né í vinnu nefndarinnar? Hvers vegna var ráðuneytið ekki fyrir löngu búið að framkvæma það sem þarf að framkvæma? Meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar segir í nefndaráliti sínu að nauðsynlegt sé að ákvörðun um val á þjónustuveitanda byggist á nauðsynlegum upplýsingum. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Hvers vegna telur meiri hluti nefndarinnar ekki nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga, sem er æðsta stofnun landsins, sjálfur löggjafinn, byggi ákvarðanir sínar um lagasetningu þegar ákvörðun er tekin um grunnþjónustu á nauðsynlegum upplýsingum? Hvers vegna vill meiri hluti hv. umhverfis- og samgöngunefndar og greinilega stjórnarmeirihlutinn á Alþingi alls ekki að þessi lagasetning sé byggð á nauðsynlegum upplýsingum? Mér sem sérlegri áhugakonu um vandaða lagasetningu er þetta fullkomlega óskiljanlegt.

Herra forseti. Það er því miður ekki hægt að kvitta upp á þessi vinnubrögð stjórnvalda og þessi vinnubrögð meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem virðist vera stimpilpúði fyrir ríkisstjórnina og því mun Samfylkingin að sjálfsögðu sitja hjá þegar þetta annars mikilvæga frumvarp er varðar grunnþjónustu á Íslandi kemur til atkvæðagreiðslu.