149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

póstþjónusta.

270. mál
[22:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna og vil bregðast við ásökunum um dylgjur og aðdróttanir sem ég á að hafa farið með í ræðu minni. Eitt og annað er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, t.d. að fjárlaganefnd hefur ekki tekið skýrslu Ríkisendurskoðunar til efnislegrar meðferðar. Þá trúi ég því líka sem hv. þingmaður sagði, að hann hefði ekki lesið skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst enda ríkir um hana trúnaður og hann ætti því ekki að hafa nokkurn einasta aðgang að henni eða innihaldi hennar, enda er hann hvorki nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd né hv. fjárlaganefnd.

Hér er verið að tala um að vinna af heilindum. Þá verð ég að segja að allir þeir sem hafa setið nefndarfundi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hafa orðið þess áskynja að sú sem hér stendur og aðrir þeir sem standa að minnihlutaálitinu hafa á hverjum einasta fundi þar sem rætt hefur verið um þetta frumvarp um póstþjónustu nefnt það að þetta mál verði ekki tekið út úr nefndinni og afgreitt nema við séum búin að sjá skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst. Þetta hefur verið nefnt af fullkomnum heilindum í nefndinni á hverjum einasta fundi sem málið hefur verið rætt. Ég verð að segja að það kom þeirri sem hér stendur, og ég veit að það kom fleiri þingmönnum, algjörlega á óvart að það ætti að keyra þetta mál í gegn núna þegar þetta er ekki dagsetningarmál. Þessi lög eiga að taka gildi 1. janúar 2020. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að afnám einkaréttar sé undirbúið til næstu áramóta. Það eina sem ég er að óska eftir er að stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) reyni nú einu sinni að vanda sig við lagasetningu í staðinn fyrir að keyra eitthvert mál í gegn, bara af því bara, (Forseti hringir.) af því að hann getur það og reynir ekki einu sinni að byggja það á þeim upplýsingum sem þó eru komnar til þingsins.

(Forseti (WÞÞ): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörk.)