149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu.

993. mál
[23:37]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu. Tillagan er lögð fram af velferðarnefnd.

Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að láta gera úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu. Úttektin verði gerð af óháðum aðilum í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Við mat á fjárhagslegum áhrifum skuli meta áhrifin á bæði útgjaldahlið og tekjuhlið ríkissjóðs. Leiði úttektin í ljós að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna feli ekki í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð leggi félags- og barnamálaráðherra fyrir 1. mars 2020 fram frumvarp sem feli í sér afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu. Leiði úttektin aftur á móti í ljós að breytingarnar feli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði málinu vísað til starfshóps um kjör aldraðra þar sem rætt verði um áhrif tekjuskerðinga almennt og hvaða leiðir séu í boði í þeim efnum.

Í greinargerð með þessu frumvarpi segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Flokkur fólksins lagði fram frumvarp á yfirstandandi löggjafarþingi (24. mál) sem áður var lagt fram á 148. löggjafarþingi (51. mál). Við þinglokasamninga á yfirstandandi þingi féllust allir flokkar á að þetta þingmál Flokks fólksins næði fram að ganga í formi þessarar þingsályktunartillögu.

Samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, hafa ellilífeyrisþegar sérstakt 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna. Auk þess hafa ellilífeyrisþegar almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur þeirra, þar með taldar atvinnutekjur“ en einnig lífeyrissjóðstekjur.

„Í mars 2019 voru 36.402 einstaklingar með virk réttindi til ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þar af voru 32.178 eða 88,4% ekki með neinar skráðar atvinnutekjur. Af þeim 4.224 ellilífeyrisþegum sem voru með skráðar atvinnutekjur voru 1.535 með tekjur á bilinu 1.000–50.000 kr. á mánuði og 717 einstaklingar með tekjur á bilinu 50.000–100.000 kr. á mánuði. Því voru aðeins 1.972 ellilífeyrisþegar með hærri atvinnutekjur en sem nam 100.000 kr. frítekjumarkinu eða 5,4% allra þeirra ellilífeyrisþega sem fengu greiðslur frá stofnuninni. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að gera má ráð fyrir því að talsverður fjöldi einstaklinga 67 ára og eldri sé í vinnu og hafi ekki sótt um greiðslur þar sem atvinnutekjur þeirra geri það að verkum að þeir eigi ekki rétt til neinna greiðslna frá almannatryggingum.

Fram hafa komið kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema með öllu skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna og hefur því m.a. verið haldið fram að það þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og að ríkissjóður gæti jafnvel haft fjárhagslegan ávinning af því. Því er mikilvægt að meta með einhverjum hætti áhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs með tilliti til aukinnar atvinnuþátttöku ellilífeyrisþega og þjóðhagslegra áhrifa vegna þeirra breytinga. Aldraðir á vinnumarkaði eru verðmætt vinnuafl sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Mikilvægt er að aldraðir hafi sem hæstar ráðstöfunartekjur þannig að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi. Áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara og eykur lífsgæði þeirra.

Mikilvægt er talið að réttindakerfi almannatrygginga sé þannig uppbyggt að það hvetji til atvinnuþátttöku einstaklinga sem byggja framfærslu sína að hluta eða öllu leyti á stuðningi opinberra aðila. Jafnframt er mikilvægt að í bótakerfinu séu innbyggðir hvatar sem stuðli að aukinni atvinnuþátttöku fólks sem fær greiðslur frá almannatryggingum. Meta verður hvaða áhrif skerðingar vegna atvinnutekna, frítekjumörk og möguleg hækkun þeirra og loks afnám skerðinga vegna atvinnutekna hefðu á atvinnuþátttöku aldraðra og fjárhag ríkissjóðs.

Með tillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra verði falið að láta gera úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu og á fjárhagslegum áhrifum þess að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna. Lagt er til að úttektin verði gerð af óháðum aðila og í samstarfi við félagsmálaráðuneytið. Leiði úttektin í ljós að afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna feli ekki í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð skuli félags- og barnamálaráðherra leggja fram frumvarp á næsta löggjafarþingi, fyrir 1. mars 2020, sem feli í sér afnám skerðinga ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna. Leiði úttektin aftur á móti í ljós að breytingarnar feli í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verði málinu vísað til starfshóps um kjör aldraðra þar sem rætt verði um áhrif tekjuskerðinga almennt og hvaða leiðir séu í boði í þeim efnum.“

Í þessu samhengi vil ég benda á að fyrir rétt rúmu ári, þ.e. 12. júní 2018, samþykktum við á þinginu breytingar á lögum um skattlagningu styrkja. Þar vorum við að breyta lögum sem voru gerð upphaflega til að hjálpa fólki og styrkja með bensínstyrk og ýmsum styrkjum, sérstaklega öryrkjum, en sem urðu síðan að snöru um háls viðkomandi vegna þess að það var bæði skattað og skert og þar af leiðandi höfðu þau áhrif að viðkomandi sem taldi sig vera að fá t.d. bensínstyrk til að komust í vinnu fékk aldrei þennan styrk vegna þess að hann var tekinn króna á móti krónu af viðkomandi.

Svona ólög eru því miður til og hér erum við að reyna að ná út einum slíkum ólögum, einmitt þeim sem ég hef aldrei getað skilið, þ.e. lögum sem hindra fólk í að vinna. Það er eiginlega óskiljanlegt að í nútímasamfélagi skuli vera reynt allt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir að fólk vinni vegna þess að í þessu tilfelli verðum við líka sérstaklega að líta til þess að þeir einstaklingar — við erum að tala um eldri borgara — sem fara að vinna eru þegar með lífeyrissjóðsgreiðslur, eru þegar búnir að borga útsvar og allar þær aukatekjur sem koma inn fara beint í ríkissjóð. Það er þannig beinn hagnaður ríkissjóðs af þeim tekjum sem þarna eru undir. Í sjálfu sér sýnir það bara þau rök að ríkið er hvort sem er að borga þessum einstaklingum í dag. Allur ágóðinn ef einstaklingar fara að vinna skilar sér með sköttum og virðisaukaskatti og ýmsum góðum afleiðingum af því að leyfa fólki að vinna án þess að skerða tekjur þess.

Ég vona að þessi þingsályktunartillaga fái góða meðferð og ég hef fulla trú á því að það komi í ljós við úttekt á henni, sem ég trúi statt og stöðugt á, að það sé hagkvæmt í alla staði fyrir ríkissjóð að leyfa eldri borgurum að vinna án allra skerðinga.