149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[00:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er mjög gott mál og mig blóðlangar að greiða atkvæði með því en ég mun vera á gulu. Ástæðan er sú að jafnvel þótt við séum í dag búin að samþykkja þingsályktunina um öryggi búfjárstofna og lýðheilsu landsmanna þegar kemur að innflutningnum treysti ég því hreinlega ekki að jafnvel þó að því sé frestað til 1. janúar verði þetta innleitt. Ég held samt sem áður að það muni gera það en mig langar ekki að bera ábyrgð á því ef það virkar ekki. Að öllum líkindum verður það. Í þingsályktunartillögunni í dag er 11. nóvember settur, þá eiga mótvægisaðgerðirnar að vera tilbúnar frá ráðherra. Ég vona virkilega að það gerist og ég held að það gerist en ég ætla ekki að bera ábyrgð á því ef það gerist ekki. Þetta sýnir kannski traust mitt til þess að raunverulega verði settir peningar í þessar mótvægisaðgerðir sem ég treysti ekki heldur með fiskeldið. [Hlátur í þingsal.]

Ég bendi samt sem áður á það og undirstrika að það hefur verið vel að þessu staðið en ég ætla ekki að bera ábyrgð á því ef þetta fer í klessu.