149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um lagaumgjörð um fiskeldi sem kemur til með að eyða óvissu um framtíðaruppbyggingu í þessari mikilvægu atvinnugrein, kemur til með að efla byggðir og styrkja mjög efnahag landsins. Atvinnuveganefnd hefur lagt mikla áherslu á að kynna sér vel frá öllum hliðum sjónarmið í þessu máli, jafnt frá greininni sjálfri sem og umhverfisgeiranum. Vissulega hafa verið áhyggjur af opnum sjókvíum og hugsanlegri erfðablöndun við íslenska villta laxinn. Ég tel að vel hafi tekist að mæta öllum þessum sjónarmiðum í frumvarpinu. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið í meðförum nefndarinnar höfum við komið inn sterkari umhverfiskröfum og lagt áherslu á varnir gegn sjúkdómum í eldi. Einnig eru mótvægisaðgerðir efldar og tekið tillit til þeirra í líkani að áhættumati.

Ég tel að við séum að samþykkja mál sem hefur fengið mikla og góða umfjöllun og komi til með að styrkja mjög þessa grein í framtíðinni (Forseti hringir.) og líka að koma í veg fyrir erfðablöndun við villta íslenska laxinn.