149. löggjafarþing — 126. fundur,  20. júní 2019.

fiskeldi.

647. mál
[00:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þessi breytingartillaga fær mann til að treysta því ekki að þegar fram í sæki verði ekki orðið við því að hlusta á þennan grátkór hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi af því að þessi breytingartillaga er til komin vegna grátstafanna og hvernig þau komu fram í nefndinni. Mig vantar bara orð til að lýsa því.

Í gær, rétt þegar við töldum að þetta væri að klárast, komu þau fyrir nefndina og sögðu að þetta væri ekki nóg sem þau væru að fá. Þau vildu fá meira inn í gamla kerfið — og það er nákvæmlega það sem þau eru að fá í dag. Með þessu samþykki fá þau meira inn í gamla kerfið.

Við vitum að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrrverandi LÍÚ, hafa gríðarlega sterk ítök. Það er ekki einu sinni búið að samþykkja þetta mál og þau eru strax komin með stuðning við breytingartillögu um að það eigi að færa meira inn í gamla kerfið.

Þess vegna treysti ég því ekki að það sé raunverulega verið að sýna okkur rétt á spilin varðandi þetta allt saman.